Hólmfríður Garðarsdóttir, ljósmóðir og sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi starfar á neyðarsjúkrahúsi Rauða krossins í Rafah á Gaza. Neyðarsjúkrahúsið hefur verið starfrækt í tvo mánuði og sinnir Hólmfríður konum á meðgöngu, í fæðingu og eftir fæðingu.
„Margar þessara kvenna búa við erfiðar aðstæður, hafa þurft að flytja sig oft og skortir raunverulega flest það sem við teljum vera eðlilegt í daglegu lífi. Það er að segja aðgengi að vatni og heilsugæslu.“
Hún segir konurnar einnig hafa orðið fyrir skaða í átökunum.
„En raunverulega á fæðingardeildinni sjáum við meiri hamingju en sorg. Af því litlu krílin þau veita okkur von og við verðum bjartsýnni á framtíðina. Þess vegna koma oft kollegar mínir sem hafa átt erfiðan dag á spítalanum á fæðingardeildina til að hitta litlu sætu krílin, af því að það gerir okkur gott, og foreldrarnir eru alltaf viljug til að deila þessari hamingju með okkur.“