Á mánudaginn ræddi hann málin við þingmennina Ron Johnson, J.D. Vance og Mike Lee (sem eru allir Repúblikanar) um stríðið í Úkraínu. Fór umræðan fram á X Spaces sem er spjallsvæði á samfélagsmiðlinum X.
Musk fór ekki leynt með að hann telur engar líkur á að Rússar, undir forystu Vladímír Pútíns, tapi stríðinu í Úkraínu. „Þeir sem trúa öðru, lifa í draumaheimi,“ sagði hann.
Ummælin féllu í tengslum við umræðu um nýjan stuðningspakka við Úkraínu sem öldungadeild bandaríska þingsins samþykkti nýlega. Hann kveður á um stuðning upp á sem svarar til um 8.500 milljarða íslenskra króna til Úkraínu auk stuðnings við Taívan, Ísrael og Gasa.
„Þessir peningar hjálpa Úkraínu ekki, því það kemur Úkraínu ekki að gagni ef stríðið dregst á langinn,“ sagði Musk og bætti við að tryggja verði að fulltrúadeild þingsins samþykki pakkann ekki þegar hún greiðir atkvæði um hann.
Hann er sannfærður um að Pútín muni aldrei kalla hersveitir sínar heim frá Úkraínu því það þýði einfaldlega að þá séu dagar Pútíns taldir.