Undir helgi var þingfest við Héraðsdóm Reykjaness mál sem héraðssaksóknari hefur höfðað á hendur þremur dönskum mönnum fyrir stórfellt fíkniefnabrot og hlutdeild í fíkniefnabroti.
Tveir mannanna sitja í gæsluvarðhaldi á Hólmsheiði og einn á Litla-Hrauni.
Ákært er vegna atviks frá 23. júní síðastliðnum þegar mennirnir sigldu skútunni Cocotte úti fyrir Garðskagavita í Suðurnesjabæ. Þeir Poul Frederik Olsen (fæddur árið 1970) og Henry Fleischer (fæddur 1989) eru sakaðir um að hafa haft í vörslum sínum á skútunni um 157 kíló af hassi og 40 g af maríhúana. Fyrirhugað var að sigla með fíkniefnin til Grænlands til sölu og dreifingar þar. Skútan var sjósett í Danmörku og sigldu ákærðu Poul Frederik og Henry með fíkniefnin að Íslandsströndum.
Jonaz Rud Vodder, sem er fæddur 2002, er síðan ákærður fyrir hlutdeild í brotinu.
Auk þess að krefjast refsingar yfir mönnunum er krafist upptöku á fjölmörgum munum og tækjum sem tengjast brotinu, þar á meðal skútunni sjálfri, Cocotte. Einnig er krafist upptöku á fíkniefnunum, utanborðsmótor, símum, tölvum, rafstöð, björgunarvesti, plastbát og fjölmörgu öðru.