Kyiv Post skýrir frá þessu og segir að samkvæmt færslu Petro Andrusjtjenko, ráðgjafa Vadym Bojtjenko hins úkraínska borgarstjóra Maríupól, sem er í útlegð, á Telegram þá hafi árásin beinst að yfirmönnum rússneska hersing þegar Degi flotans var fagnað þann 30. júlí.
„Á meðan á hátíðarhöldunum stóð var eitrað fyrir fjölda herforingja. 17 rússneskir herforingjar voru lagðir inn á sjúkrahús. Tveir þeirra, sem urðu þar með „góðir Rússar“ létust í gær,“ skrifaði Andrusjtjenko á föstudaginn.
Hann sagði að rússneska hernámsliðið telji að úkraínskir andspyrnumenn hafi eitrað fyrir Rússunum með blásýru og skordýraeitri.
„Okkar fólk segir brosandi: „Það þarf alltaf að gefa rottum eitur.“ Dagurinn byrjaði með góðum fréttum. Skemmdarverk er svo fallegt orð, eruð þið ekki sammála,“ skrifaði hann einnig.
Hann sagði að Y-hópurinn hafi gert árásina en hann er hluti af andspyrnuhreyfingunni í Maríupól.