Þrjár manneskjur fundust látnar í miðborg Nottingham, í Bretlandi í nótt.
Í fréttum CNN kemur fram að 31 árs gamall maður hafi verið handtekinn grunaður um að hafa orðið fólkinu að bana.
Í fréttum Daily Mirror kemur fram að sá grunaði hafi verið stöðvaður undir stýri á hvítum sendibíl. Lögreglumenn hafi dragið hann út úr bílnum og yfirbugað með rafbyssum.
Lögregla var fyrst kölluð, klukkan 4 í nótt að staðartíma samkvæmt fréttum BBC, að Ilkeston Road þar sem tvær manneskjur fundust látnar. Því næst var hún kölluð að Milston Street, sem er skammt frá Ilkeston Road, en þar hafði verið gerð tilraun til að aka sendibíl á þrjár manneskjur sem í kjölfarið voru allar fluttar á sjúkrahús.
Þriðja útkallið kom á Mandala Road, sem er eilítið norðar, og þar fannst karlmaður látinn.
Lögreglan í borginni telur að öll atvikin tengist.
Lögreglustjóri borgarinnar sagði um hörmulegt og hryllilegt atvik að ræða sem hefði kostað þrjár manneskjur lífið.
Þingmaðurinn Robert Jenrick sagði íbúa í áfalli og um væri að ræða hræðilega árás. Hann sagði hug sinn og bænir dvelja hjá þeim slösuðu og ástvinum þeirra látnu.
Götum á svæðinu hefur verið lokað og almenningssamgöngur liggja niðri á meðan rannsókn á vettvangi stendur yfir.
BBC hefur rætt við íbúa á svæðinu og vitni. Einn segir lögregluna hafa barið að dyrum hjá sér klukkan 5 að morgni og beðið um upptökur úr öryggismyndavél hans. Hann segir það ekki koma á óvart að atburður af þessu tagi hafi átt sér stað í þessum hluta borgarinnar.
Lynn nokkur Hagitt segist hafa séð sendibíl keyra á tvær manneskjur en á þessari stundu er ekki ljóst nákvæmlega hvar sú ákeyrsla átti sér stað. Hún segir bílinn hafa keyrt á konu og karl. Konan hafi skollið á gangstétt en karlinn nánast flogið upp í loft. Henni var mjög brugðið og sagðist aldrei hafa séð neitt þessu líkt. Haggitt hljóp að hinum slösuðu til að bjóða fram aðstoð og segist ekki hafa trúað eigin augum þegar karlmaðurinn stóð upp.
Annað vitni, karlmaður sem vill ekki koma fram undir nafni, segir við BBC að hann búi nærri Ilkeston Road þar sem manneskjurnar tvær fundust látnar. Hann segist hafa ákveðið að sofa með opinn glugga vegna sumarhitans en vaknað um fjögur leytið í nótt við afar hávær öskur. Þar sem nokkuð er um að fólk gangi um svæðið á leið frá skemmtistöðum taldi hann í fyrstu um rifrildi að ræða.
Hann horfði út um gluggann og sá mann, dökkan á hörund og svartklæddan með bakpoka, í átökum við ungan karlmann og unga konu. Konan hrópaði á hjálp og vitnið segist nú óska þess að hafa hrópað eitthvað til að koma hugsanlega árásarmanninum úr jafnvægi. Vitnið hélt síðan frásögn sinni áfram:
„Ég sá hann stinga piltinn fyrst og svo konuna. Hann stakk þau ítrekað, fjórum til fimm sinnum. Pilturinn hneig niður á götuna. Stúlkan skjögraði að húsi og hreyfði sig ekki. Í kjölfarið hvarf hún sjónum mínum og var til hliðar við annað hús. Þar fundu þau hana. Ég myndi segja að þetta hafi allt gerst á fimm til sex mínútum. Árásarmaðurinn gekk síðan í rólegheitum upp Ilkeston Road.“
Maðurinn hringdi á neyðarlínuna og segir lögregluna hafa komið á staðinn innan fimm mínútna. Hann segir bráðaliða hafa reynt í 40 mínútur að lífga ungu konuna og karlmanninn við en án árangurs. Hann segist hafa verið of hræddur til að blanda sér í málið og yfirgefa heimili sitt til að gera tilraun til að koma unga fólkinu til bjargar.
Miðað við frásögn mannsins virðist því nokkuð ljóst að fyrstu tvær manneksjurnar sem fundust látnar hafi orðið fyrir hnífsstungum.
Rishi Sunak forsætisráðherra Bretlands þakkaði viðbragðsaðilum fyrir störf sín og sagði hug sinn hjá þeim slösuðu og ástvinum hinna látnu.
Suella Braverman innanríkisráðherra segist hafa rætt við lögreglustjórann og hún fái reglulega upplýsingar um hina yfirstandandi rannsókn.