fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

Ef hann fengi hana ekki í lífinu skyldi hann fá hana í dauðanum – Helsjúk ást

Guðrún Gyða Eyþórs Árnadóttir
Sunnudaginn 25. september 2022 19:22

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Carl Tanzler flutt frá Þýskalandi ásamt Doris, konu sinni og tveimur ungum börnum, til Flórída árið 1926. Hugmyndin var að leita betra lífs í hlýrra loftslagi en Carl ákvað að leitin hentaði honum betur einum og yfirgaf því fjölskyldu sína.

Hann hafði hvort eð er aldrei verið það spenntur fyrir konu sinni og taldi enn ekki of seint að gera hosur sínar grænar fyrir fegurðardísum Flórída. Jafnvel þótt hann væri orðinn fimmtugur.

Carl Tenzler

Hinn suðræni sálufélagi

Carl sagði einnig hverjum sem heyra vildi, að á barnsaldri hefði formóðir hans vitrast honum og sagt sálufélaga hans vera dökkhærða konu frá suðrænu landi. Sem augljóslega var ekki Doris Tanzler.

Hann hóf að kalla sig Carl von Cosel og flaggaði uppdiktuðum greifatitli. Hann kvaðst einnig hafa lært til læknis en fátt bendir til þess að það eigi sér nokkra stoð. Hann var aftur á móti geislafræðingur og fékk starf sem slíkur við sjúkrahús í Key West.

Maria Elena

Þar hitti hann Mariu Elenu Milagro de Hoyos í apríl 1930. Maria Elena var tvítug, ein nokkurra barna kúbverskra innflytjenda, og hafði móðir hennar komið með hana á sjúkrahúsið vegna þráláts hósta.

Maria Elena var allt sem Carl hafði dreymt um og augljóslega konan úr spádómi formóðurinnar frá æskuárunum. Hún var ung, dökkhærð með stór brún augu og rödd sem silki. Hann var heillaður og þess fullviss að Maria Elena væri honum ætluð og hans stóra og sanna ást.

En Maria Elena var langt frá því góð til heilsunnar og reyndist hóstinn vera af völdum berkla sem á þessum árum voru dauðadómur.

Maria Elena átti ekki mikið eftir.

Vildi bjarga lífi hennar

Carl fékk það á heilann að bjarga lífi Mariu og þrátt fyrir að vera henni þrjátíu árum eldri var hann ákveðinn í að kvænast henni. Maria var reyndar gift en hafði stuttu áður slitið sambúð við eiginmann sinn til tveggja ára.

Carl kom sér í mjúkinn við foreldra Mariu sem voru honum þakklát fyrir áhugann á bata dóttur þeirra. Þrátt fyrir litla sem enga þekkingu á sjúkdómnum fór hann daglega á heimili fjölskyldunnar með ný lyf, bætiefni og heilsubætandi mixtúrur.

En ekkert sló á berklana sem voru að draga Mariu til dauða.

Maria Elena

Carl færði henni dýrar gjafir og samdi ástarljóð sem Maria kunni illa að meta. Sagði hún Carl ítrekað að hún hefði engan rómantískan áhuga á honum og fyndist þetta reyndar allt saman afar óþægilegt í alla staði.

Svo fór að Maria lést í október 1931 og var fjölskylda hennar eðlilega í sárum.

Svo og hinn ástsjúki Carl sem fór fram á að fá að sjá um útför Mariu og skyldi hvergi til sparað. Foreldrar Mariu höfðu lítið á milli handanna og voru velgjörðarmanni sínum þakklát fyrir boðið. Réð Carl því útfararstjóra til að búa um lík Mariu og kom því fyrir í rándýru grafhýsi sem hann hafði fest kaup á.

Sem hann einn hafði lykil að.

Verkefnið í flugvélarflakinu

Í tæp tvö ár fór Carl daglega í grafhýsið til að gráta sína glötuðu ást en hætti því svo skyndilega. Fjölskyldu Mariu fannst þessi snögga breyting í fari Carls nokkuð furðuleg en gerðu ráð fyrir að hann hefði ef til vill fundið nýja ást og kosið að snúa baki við minningu Mariu og halda áfram með líf sitt.

En ástæðan var allt önnur og mikið hryllilegri.

Carl Tanlzer

Í skjóli nætur í apríl 1933 fjarlægði Carl lík Mariu úr grafhýsinu og fór með það heim til sín.

Maria Elena hafði aftur á móti verið látin í tvö ár og var lík hennar eðlilega farið að láta verulega á sjá. Carl ákvað að bæta úr því.

Hann keypti gamal flugvélaflak sem hann breytti í eins konar tilraunastofu og hófst þar handa við að hressa upp á útlit Mariu Elenu. Hann setti í hana augu úr gleri, notaði vírherðatré til að halda líkama hennar saman og tjaslaði upp á það sem upp á vantaði með gifsi. Hann fyllti kvið hennar með silkiklútum til að reyna að ná fram sem eðlilegustu útliti og setti hárkollu á höfuð hennar.

Lík Mariu Elenu sjö árum eftir lát hennar.

Hann notaði sömu förðunarvörur og útfararstjórar nota á andlit hennar til að láta svo líta út að hún væri enn á lífi.

Carl keypti dýra kjóla, hanska, skó og skartgripi sem hann klæddi Mariu í, og þegar hann var orðinn sáttur við handverk sitt flutti hann líkið úr flugvélarflakinu og heim. Nánar tiltekið í svefnherbergi sitt þar sem Maria Elena, eða það sem eftir var af henni, átti eftir að liggja næstu sjö árin.

Dúkkan ekki dúkka

Margir í bænum höfðu orðið varir við furðulega einbúann sem sífellt var að kaupa kvenfatnað og ilmvötn. Krakkar mönuðu hvert annað í að kíkja á glugga hjá honum og sór einn strákurinn að hafa séð karlinn dansa við ,,stóra dúkku.”

Carl, ásamt lögfræðingum sínum, ræðir við geðlækni sem mat hann heilan á geði.

Hoyos fjölskylduna fór að gruna að eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera og árið 1940 bankaði systir Mariu Elenu upp á hjá Carl og krafðist þess að vera hleypt inn. Henni var brugðið þegar að hún gekk fram á ,,dúkku” í fullri líkamsstærð sem minnti óþægilega mikið á látna systur hennar og kallaði því til lögreglu.

Systirin fékk áfall þegar að lögregla sagði henni að ,,dúkkan” væri í raun lík systur hennar.

Carl Tanzler var handtekinn með snari fyrir grafarrán sem var það eina sem yfirvöldum kom til hugar enda fátt í lagaramma sem náði yfir gjörðir Carls. Ekki var á bætandi fyrir Hoyes fjölskylduna að heyra að Carl hafði sett  pappatúpu milli fóta Mariu í þeim tilgangi að búa til eins konar leggöng.

Carl viðurkenndi aldrei að hafa haft mök við líkið en fólk hugsaði sitt.

Rómantík? 

Sálfræðingar úrskurðuðu Carl heilan á geði en þar sem brot hans var fyrnt var honum sleppt.

Líki Mariu Elenu var komið fyrir á útfararstofu og haft þar til sýnis áður en hún var jörðuð og dreif að sjö þúsund forvitna gesti að skoða handverk Carls.

Þúsundir manna vildu sjá líku Mariu.

Carl fékk merkilega mikla samúð frá almenningi. Hann var jú álitinn stórskrýtinn en sumum fannst gjörðir hans jafnvel rómantískar og vitnisburður um einlæga ást hans.

Fyrsta verk Carl Tenzler eftir að losna úr haldi var að festa kaup á (dökkhærðri) dúkku í fullri líkamsstærð sem hann tók heim með sér. Hann einangraði sig alfarið frá heiminum og lést árið 1951. Lík hans fannst þremur vikum eftir andlátið.

Ásamt dúkkunni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 2 dögum

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir

Svona eiga þau saman – Ekki aðeins æðislegir elskhugar heldur líka mjög góðir vinir