Anna Þorsteinsdóttir er íþróttafræðingur og móðir, búsett í Danmörku þar sem hún er á þriðja ári í matvælaverkfræðinámi. Hún heldur úti vinsælli Instagram-síðu þar sem hún deilir ýmsum fróðleik um heilsu og hreyfingu en á dögunum fjallaði hún um annað málefni sem vakti talsverða athygli – myndir af fáklæddum ungbörnum á samfélagsmiðlum.
Í samtali við DV segir Anna að kveikjan að umræðunni hefði verið fjöldi mynda sem hún sá á samfélagsmiðlum af ungbörnum og nýfæddum börnum í bleyju. Hún segist skilja að fólk birti slíkar myndir og hún hafi gert slíkt sjálf um tíma. En eftir að hafa kynnt sér málið frekar og komist að því að barnaníðingar sækjast í myndefni af kornungum börnum – allt niður í nýfædd börn sem eru enn með naflastrenginn – breytti hún hvers konar efni hún deilir á samfélagsmiðlum. Hún vill nota vettvang sinn til að fræða aðra foreldra um hætturnar á netinu.
„Ég er ekki að skammast í neinum sem hefur verið að gera þetta, ég var líka þarna sjálf. Ég er að reyna að fá aðra til að komast á þann stað að gera sér grein fyrir hættunum,“ segir hún.
„Fólk deilir oft bleyjumyndum af nýfæddum börnum, jafnvel deilir það myndum af barninu á fæðingardeild, sem maður skilur alveg,“ segir hún og bætir við að þessar myndir séu mjög krúttlegar og fallegar fyrir heiðarlegt fólk.
„Maður var þarna líka einu sinni, en svo fer maður að hugsa. Myndefni af nýfæddum börnum er sérstakur flokkur barnaníðsefnis. Ég sjálf fattaði ekki þetta fyrr en ég fór að fylgja einni konu á samfélagsmiðli sem var að tala um þetta,“ segir hún. Skjáskot af síðu umræddrar konu má sjá hér að neðan, eða með því að smella hér.
„Maður er svo saklaus eitthvað en það er svo mikið til af ógeðslegu fólki. Heimurinn er svo ljótur og internetið sérstaklega. Maður heldur að ekkert slæmt gerist á Íslandi en internetið er ekki bundið við Ísland, heldur opið fyrir öllum heiminum,“ segir hún.
Það hefur komið upp mál þar sem íslenskur karlmaður með bleyjublæti notaði samfélagsmiðla til að hafa samband við mæður með ungbörn. Það var Böðvar Guðmundsson, dæmdur barnaníðingur, og fann lögregla yfir 500 myndir af börnum í tölvu hans og síma – þar sem börnin voru í flestum tilvikum í bleyju. Anna rifjar upp að hún hafi verið í taubleyjuhóp á Facebook fyrir nokkrum árum, þar sem margar mæður deildu myndum af börnunum sínum í bleyju, og var Böðvar meðlimur í þeim hóp.
Sjá einnig: Böðvar kominn aftur á kreik – Dæmdur barnaníðingur með bleyjublæti
Anna nefnir viðtal sem hún sá þar sem karlmaður, sem starfar við að finna fólk sem framleiðir og dreifir barnaníðsefni á netinu, talaði um að myndir af ungbörnum enn með naflastrenginn sé sérstakur undirflokkur barnaníðsefnis. Leikkonan Blake Lively hélt átakanlega ræðu árið 2017 þar sem hún sagði frá samtali sínu við lögreglumann sem starfaði við að fara í gegnum svona efni.
„Börnin eru sífellt yngri […] Þegar lögreglumaðurinn sagði mér þetta spurði ég hversu ung eru yngstu börnin sem hann hefur séð og hann sagði: „Ungbörn“ […] ég spurði hvað hann ætti við með því, hvernig skilgreinir hann ungbarn, og hann sagði: „Ennþá með naflastrenginn,““ sagði Blake.
„Maður hugsar um ungbörn og þetta er það saklausasta sem til er,“ segir Anna. „Að einhver skuli horfa á þessar myndir og hugsa kynferðislegar hugsanir er svo sturlað, en það gerist og það er mikilvægt að fólk átti sig á því.“
Anna hvetur foreldra til að vera meðvitaða um þetta, þó það sé með lokaða aðganga á samfélagsmiðlum. „Þó þú telur þig þokkalega örugga, bara með bara vini og vandamenn á miðlinum, þá veistu aldrei hver er að skoða og vista myndirnar. Verstu barnaníðingar í heimi eiga fjölskyldur, systkini, mæður, ömmu, afa og svo framvegis. Við vitum ekki hvað þetta fólk er að gera á bak við tjöldin,“ segir hún
„En sérstaklega ef þú ert með opna miðla, allt internetið getur séð myndirnar, ekki bara Íslendingar. Margir níðingar nota forrit til að finna þessar myndir á netinu. Fólk þá um allan heim getur vistað myndir af nýfæddu barni þínu. Það sem þér þykir fallegt er kynferðislega örvandi fyrir annan.“
„Ef við förum út fyrir barnaníðsefni og þá umræðu þá er mikilvægt að hafa í huga að börnin eiga skilið sitt einkalíf og friðhelgi, hvað þá ef þú ert með með þúsundir fylgjenda. Barnið þitt verður sextán ára og það er bara til fullt af efni um það á netinu,“ segir Anna. Við ræðum um þá tengingu sem myndast milli áhrifavalda og fylgjenda – að fylgjendum byrjar að líða eins og það þekki manneskjuna á bak við skjáinn – og þegar áhrifavaldar deila mikluefni af börnunum sínum þá byrjar fylgjendum að líða eins og þeir þekki börnin. Jafnvel heilsa þeim með nafni út í búð, vita hvað barnið gerði yfir daginn og hvaða vandamál það er að glíma við.
DV ræddi við umboðsmann barna í fyrra um börn, sér í lagi börn áhrifavalda, á samfélagsmiðlum.
„Foreldrar hafa rétt á að taka ákvarðanir hvað varðar hag barna, en það þýðir ekki að þeir hafi ótakmarkaðan rétt vegna þess að börnin eiga líka sjálfstæð réttindi. Þetta snýst um það. Þau hafa rétt á að friðhelgi þeirra sé virt. Með tilkomu samfélagsmiðla hafa komið upp ný álitaefni og foreldrar verða að axla ábyrgð sína og vernda börnin sín,“ sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna.
„Svo má ekki gleyma að allar þessar myndir sem við erum að deila á Facebook og Instagram, þær eru í eigu erlendra fyrirtækja. Þú átt ekkert þessar myndir eftir að þú setur þær þarna inn og það hafa jafnvel allir aðgang að þeim. Barnið verður berskjaldað. Núna er að vaxa upp kynslóð sem hefur alist upp við þetta frá blautu barnsbeini og það er alveg gríðarlegt magn af myndum af börnum á samfélagsmiðlum, og margar þeirra eiga ekkert erindi þangað. Það eru ekki bara foreldrar sem deila myndum af börnum á samfélagsmiðlum, heldur líka ömmur og afar, og oft án nokkurrar umhugsunar og því þarf að breyta.“
Sjá einnig: Börn áhrifavalda orðin að markaðssettri tekjulind
Anna tekur það skýrt fram að hún er alls ekki að dæma eða skammast í foreldrum sem hafa lent í því að eitthvað svona kemur fyrir.
„Internetið er búið að þróast hratt síðustu ár og maður er enn að átta sig á hættunum. Það er ekkert foreldri sem deilir dásamlegum augnablikum af börnunum sínum og býst við einhverju svona. Sökin liggur alfarið hjá fólkinu sem misnotar myndirnar. En við þurfum því að gera okkar besta að koma í veg fyrir vandamálið með því að bjóða ekki auðveldlega uppá að það sé gert. Þegar maður sjálfur er einstaklingur sem vill öðrum vel þá er erfitt að átta sig á því að það eru alls ekki allir þannnig.“
Það er hægt að sjá umræðuna í highlights hjá Önnu á Instagram, eða með því að smella hér.