Vladimir Pútín, forseti Rússlands, hefur beint þeim orðum til nágrannaþjóða Rússlands að stigmagna ekki stöðuna í stríðinu sem nú á sér stað í Úkraínu.
Því hefur verið haldið fram að Úkraína sé aðeins fyrsti áfanginn í áformum Pútíns um að auka völd Rússlands og hafa nágrannaþjóðir á borð við Eystrasaltsríkin, Moldóvu og Georgíu, fundið fyrir mikilli ógn.
„Við berum engan kala til nágranna okkar. Og ég myndi ráðleggja þeim að stigmagna ekki stöðuna, að kynna ekki fleiri þvinganir til sögunnar. Við fullnægjum öllum okkar skyldum og munum halda því áfram,“ sagði Pútín í sjónvörpuðu ávarpi.
„Við sjáum enga þörf á því að gera vont verra í samskiptum okkar við önnur ríki. Og allar okkar gjörðir eiga rætur að rekja til óvinveittra aðgerða, aðgerða gegn Rússlandi.“