Samkvæmt bráðabirgðatölum voru 17 innanlandssmit af Covid-19 í gær og fimm smit á landamærum. RÚV greinir frá þessu.
Hjördís Guðmundsdóttir, samskiptastjóri Almannavarna, var ekki reiðubúin að gefa upp tölur yfir smit fyrr en laust fyrir kl. 11 en sagði að smitrakning vegna hópsmita undanfarið gengi vel.
Samkvæmt frétt RÚV voru 11 smit af 17 í gær hjá börnum. Greindust smit bæði hjá börnum í Laugalækjarskóla og Laugarnesskóla sem hafa verið í sóttkví undanfarið.
Ekki liggur fyrir hvort smit utan sóttkvíar greindust í gær. Hjördís var ekki tilbúin að svara því fyrr en laust fyrir kl. 11.
Meðal smitaðra í gær er starfsmaður í Vesturbæjarskóla og eru allir nemendur 2. bekkjar komnir í sóttkví þar.