Um klukkan 21 í gærkvöldi var tilkynnt um innbrot í íbúð í miðborginni. Unnið er að standsetningu íbúðarinnar og var verkfærum, rafskútu og fleiru stolið úr henni. Þjófurinn komst inn um glugga. Þrír ökumenn voru handteknir í gærkvöldi og nótt, grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Allir reyndust þeir vera sviptir ökuréttindum. Að auki var akstur eins ökumanns til viðbótar stöðvaður en sá reyndist vera sviptur ökuréttindum.
Á níunda tímanum var maður í annarlegu ástandi handtekinn í Hlíðahverfi. Hann er grunaður um vörslu fíkniefna og var hann vistaður í fangageymslu.
Á öðrum tímanum í nótt var maður handtekinn í Bústaðahverfi en hann hafði barið á dyr og glugga á húsum og reynt að komast inn. Meint fíkniefni fundust á manninum. Hann var vistaður í fangageymslu.