fbpx
Mánudagur 29.apríl 2024
Fréttir

Margrét sýknuð af ákæru um árás á lögregluþjón

Ágúst Borgþór Sverrisson
Miðvikudaginn 18. nóvember 2020 14:15

Margrét Friðriksdóttir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Margrét Friðriksdóttir frumkvöðlafræðingur var í dag sýknuð í Héraðsdómi Reykjavíkur af ákæru um árás á lögregluþjón. Henni var gefið að sök að hafa sparkað í vinstri kálfa lögreglumanns við skyldustörf á heimili hennar sumarið 2019. Áverkavottorð lögreglumannsins leiddi ekki í ljós neina áverka eða ummerki um árás.

Texti ákærunnar var örstuttur en þar segir að Margrét sé ákærð fyrir brot gegn valdstjórninni með því að hafa á heimili sínu sparkað í kálfa á vinstri fæti lögreglumanns sem var við skyldustörf með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið mjúkvefjaáverka á kálfanum.

Margrét átti við áfengisvandamál að stríða á þessum tíma en hætti að drekka skömmu eftir atvikið. Þetta kvöld hafði hún drukkið romm á fastandi maga með þeim afleiðingum að hún varð ofurölvi og ósjálfbjarga. Dóttir hennar á unglingsaldri hringi í Neyðarlínuna.

Samkvæmt atvikalýsingu Margrétar þá framkvæmdi lögreglan harkalega handtöku á henni í stað þess að koma henni til hjálpar. Dóttir hennar hafi verið að hringja eftir sjúkrabíl en ekki lögreglu.

„Ég svaf úr mér í fangaklefa. Þegar ég vaknaði var minnið mjög gloppótt. Ég spurði hvers vegna ég væri þarna og þeir voru dónalegir við mig, svöruðu mér þurrlega að ég hefði verið handtekin fyrir ofbeldi gegn valdstjórninni,“ sagði Margrét við DV í október í tilefni ákærunnar.

Margrét sýknuð

„Niðurstaðan er einfaldlega að framburður lögreglumanna var óskýr og í raun ótrúverðugur. Framburður brotaþola var ekki í samræmi við áverkavottorð, enda sagði áverkavottorðið að engir áverkar væru eða eymsl við skoðun. Á grundvelli þessa var ákærða því sýknuð af ákæru í þessu máli, þar sem ósönnuð var sú háttsemi sem var ákært fyrir,“ segir Jónas Örn Jónasson, lögmaður hjá Anno Máflutningsstofu, sem flutti málið fyrir hönd Margrétar.

Á vettvangi voru Margrét, dóttir hennar og tveir lögreglumenn. Annar lögreglumannanna sagði að Margrét hefði sparkað í sig af afli. Hinn lögreglumaðurinn sagðist hafa séð sparkið en ekki geta lýst því. Taldi dómurinn lýsingu hans á atvikinu vera óskýra. Dóttir Margrétar sá ekkert spark. Þá tekur dómurinn tillit til þess að engum áverkum eða eymslum sé lýst í áverkavottorði heldur sé þar eingöngu stuðst við framburð lögreglumannsins.

Margrét er því sýknuð af kröfum ákæruvaldsins. Sakarkostnaður skal greiddur úr ríkissjóði.

Myndi aldrei ráðast á lögreglumann

Margrét Friðriksdóttir segir í samtali við DV að hún myndi aldrei ráðast á lögreglumann, sama í hvaða ástandi hún væri. „Þetta hefur valdið mér mikilli vanlíðan og kvíða og ég hef verið hálflömuð. Þetta er rosalega mikill léttur. Þetta er líka sorgardagur fyrir mig því ég kom að föður mínum látnum á þessum degi en hann tók eigið líf. Ég hugsaði með mér í morgun að ég trúði því ekki að ég væri að fara að lenda í réttarmorði á sama degi. Réttlætið hefur sigrað,“ segir Margrét.

„Það er aldrei neinn áverki, hann býr þá bara til, lögreglumaðurinn. Þar sem stendur mjúkvefjaáverki og mar í áverkavottorðinu, það er bara hans framburður því það voru engin ummerki.“

Margrét segir að framburður lögreglumannsins fyrir dómi hafi verið mjög ósannfærandi. „Hann var spurður hvers vegna hann hefði farið upp á slysadeild með enga áverka. Þá sagði hann, ja þetta er bara verklag hjá okkur í lögreglunni. Hann sagðist ekki hafa farið af því hann hefði meitt sig í löppunni. Þetta var mjög undarlegt svar.“

Margrét segir að lögreglan hafi gerst sek um húsbrot hjá sér þetta kvöld. Hún hefði ruðst inn án leyfis og handtekið hana. „Þeir tóku dóttur mína afsíðis og ræddu við hana án mín þó að hún væri bara 15 ára, ég mótmælti því og sagðist vilja vera viðstödd en mér var bannað það. Síðan er það þessi frelsissvipting og handtaka beint fyrir framan dóttur mína þar sem þeir  settu mig í handjárn. Samt var ég ekki að brjóta neitt af mér. Það er ekki ólöglegt að vera ölvaður heima hjá sér.“

Margrét segist ekki hafa verið í neinu ástandi til að ráðast á nokkurn mann þetta kvöld. „Auk þess er það alveg út úr mínum karakter, drukkin eða ódrukkin. Ég myndi aldrei ráðast á lögreglumann yfirhöfuð. Afi minn var í lögreglunni í yfir 50 ár og ég hef alltaf borið virðingu fyrir lögreglunni. Þess vegna var það mikið áfall fyrir mig að upplifa þessi vinnubrögð.“

Margrét segist vera þakklát fyrir það að fá að upplifa í dag að réttarkerfið sé að virka.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 14 klukkutímum

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?

Norska morðgátan sem leysist líklega aldrei – Hver skrifaði bréfið sem var í rauða stólnum?
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið

Biðla til fólks að hætta að koma með snáka á spítala – Tefur fyrir og hræðir starfsfólkið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“

Framsóknarmenn styðji ÁTVR og forvarnir – „Atlaga Sjálfstæðisflokksins að ÁTVR er ævintýraleg“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa

Pálmatré raunhæft verkefni en aðeins eitt tré mun rísa