Maður sem sætti gæsluvarðhaldi í 215 daga vegna gruns um fíkniefnasmygl, en var síðan sýknaður af öllum ákærum, höfðaði skaðabótamál á hendur ríkinu þar sem hann krafðist rúmlega 41 milljóna króna.
Málið hófst með því að lögreglu hér á landi bárust upplýsingar frá dönsku tollgæslunni um að grunur væri um að fíkniefni væru í Audi bíl sem var um borð í ferjunni Norrænu á leið til Íslands. Í bílnum fannst mikið magn amfetamínbasa. Þrír aðrir menn voru sakfelldir fyrir smygl en ekki tókst að sanna að fjórði maðurinn, sem hér höfðaði mál, hafi vitað af fíkniefnunum.
Í málflutningi sínum gerir maðurinn grein fyrir því að hann hafi frá fyrsta degi verið mjög samvinnufús við lögreglu og til dæmis veitt henni ótakmarkaðan aðgang að símum sínum og tölvum. Hann hafi ekkert gert til að afvegaleiða lögreglu og verið stöðugur og samkvæmur sjálfum sér í framburði sínum.
Maðurinn segist hafa tapað launatekjum á meðan hann var sviptur frelsi auk þess sem hann og unnusta hans hefðu misst leiguhúsnæði sem þau bjuggu í. Við handtökuna hafi hann nýhafið undirbúning að stofnun fyrirtækisins en gæsluvarðhald og ákæra hefðu komið í veg fyrir þau áform enda mannorð hans í rúst eftir málið.
Í dómnum segir meðal annars:
Hinn stefndi, íslenska ríkið, hafnaði því að málatilbúnaður gegn manninum hefði verið tilhæfulaus. Þá var því haldið fram að misræmi hefði verið í framburði mannsins í yfirheyrslum hjá lögreglu og með því hefði hann sjálfur stuðlað að gæsluvarðhaldi gegn sér.
Dómurinn féllst ekki á þetta. Studdist hann við ákvæði laga sem heimila að menn hljóti skaðabætur ef þeir hafa sætt lögreglurannsókn og gæsluvarðhaldi ef þeir eru sýknaðir. Þó hafi rannsóknin ekki verið ólögmæt.
Voru manninum dæmdar 7 milljónir króna í skaðabætur.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag.