Í hartnær fjóra áratugi hafa orðin „Flatus lifir“ blasað við vegfarendum um Vesturlandsveg á Kjalarnesi. Hver hefur eflaust sína minningu og sinn skilning á Flatus. Fyrir mörgum er veggurinn og skilaboðin eflaust sæt áminning um að ferðalag sé framundan og ævintýri sé að hefjast. Aðrir tengja það eflaust við heimkomu að ævintýri loknu. „Koddinn nálgast“ hugsaði sá sem þetta skrifar fastur afturí í bíltúrum með foreldrum sínum.
Árið 2017 var veggurinn svo málaður og ný útfærsla Flatus opinberuð. Að þessu sinni með áherslu á vindgusti, enda kenningar á sveimi um að „Flatus“ sé vísun í latneska orðið flatus, sem þýðir vindur, eða vindgangur. Prump. Hvernig sem því líður, þá er ljóst að Flatus lifir enn, og mun áfram lifa.
Veggurinn sem hýsir listaverkið vinsæla, og skýlir malarvinnslunni gömlu á Kjalarnesi, mun áfram standa þrátt fyrir ætlanir Vegagerðarinnar um tvöföldun Vesturlandsvegar um Kjalarnes. Vegbreikkunin sem um ræðir hefst ekki fyrr en eftir að ekið er framhjá veggnum í vesturátt. Vegagerðin óskar nú eftir tilboðum í verkið og skal tilboðum skilað fyrir 11. ágúst næstkomandi. Fljótlega eftir það ætti því að vera orðið ljóst hvenær framkvæmdir muni hefjast og því skal að fullu lokið í júní 2023.