Það er útlit fyrir það að Mario Balotelli sé að kveðja lið Brescia eftir stutt stopp hjá félaginu.
Diego Lopez, þjálfari Brescia, hefur skotið hressilega á Balotelli sem hefur skorað fimm mörk í 19 leikjum hjá félaginu.
Hann hefur þó oftar en einu sinni komist í fréttirnar fyrir ansi umdeilda hegðun bæði innan sem utan vallar.
,,Í lífinu þá eru það staðreyndirnar sem telja frekar en orðin,“ sagði Lopez.
,,Við erum það sem við gerum, ekki það sem við segjum eða skrifum. Sannleikurinn er að liðið hefur farið eina leið og Mario fór aðra.“
,,Ég hélt að hann gæti gefið okkur svo mikið, spilandi í bænum þar sem hann fæddist. Hann hefði átt að gera miklu meira.“
,,Það eru staðreyndirnar, það er því eðlilegt að vera vonsvikinn. Ég gaf honum mikinn tíma.“