„Hræðileg sjón að finna 14 dauðar kindur og uppétnar inn allt gljúfur,“ segir kona sem var í gönguhóp í Lónsöræfum fyrr í vikunni. Illa leikin kindahræ lágu þar meðal annars skammt frá ferðaskála.
Bændum á svæðinu er álasað fyrir að hafa sumir hverjir trassað að smala fénu í haust og megnið af því hafi drepist í vetur. Ofangreind ummæli eru í Facebook-hóp Ferðafélags Austur-Skaftfellinga og birtir konan myndir af kindahræjum. DV náði sambandi við einn bóndann sem játaði á sig vanrækslu við blaðamann.
Í umræðum er bent á erfitt sé að smala á svæðinu og þyrfti að notast við dróna við verkið.
Ónefndur aðili segir í samtali við DV: „Þetta er bara dýraníð,“ og er mjög harðorður. DV hefur ekki staðfestar heimildir fyrir hve mörg kindahræ eru í Lónsöræfum en sá aðili er ræddi við DV telur að þau gætu verið um 150. Eru þau frá nokkrum býlum.
DV hafði samband við Þorstein Sigjónsson, bónda í Bjarnarnesi, og telur hann sig hafa misst um 20 kindur á svæðinu. Hann viðurkennir að smala hefði átt fénu í haust: „Auðvitað. Þannig á að vinna verkin,“ segir Þorsteinn. Aðspurður hvers vegna það hefði ekki verið gert setti Þorstein þöglan í símanum stundarkorn uns hann sagði: „Það eru töluverðir erfiðleikar að eiga við þetta.“ Þorsteinn sagði að dauði fjárins væri töluvert tjón fyrir sig og málið allt bagalegt.
Málið er á borði hjá Matvælastofnun (MAST). Sendi hún bæjarráði Hornafjarðar erindi í byrjun apríl sem bókað var á fundi ráðsins:
„Eftirlegukindur á Lónsöræfum
Erindi dags. 1. apríl frá Matvælastofnun þar sem tilkynnt er að fjöldi fjár eru enn á Kollumúlasvæðiu á Lónsöræfum. Samkvæmt ábendingu er féð í mjög slæmu ástandi.“
Meðlimir í ferðafélaginu umrædda virðast telja að mestallt þetta fé hafi þegar verið dautt þegar MAST sendi frá sér erindið.