Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag. Fram kemur að fjölskylda Sean búi í Bretlandi og að það hafi verið vinir hans hér á landi sem hvöttu fjölskylduna til að lýsa eftir honum. Hann hafði verið í samskiptum við þá á samfélagsmiðlum og sagt að hann hefði farið til Spánar með íslenskri vinkonu sinni. Vini hans fór hins vegar að gruna að einhver annar væri að eiga við þá samskipt undir nafni Sean.
Fréttablaðið hefur eftir Oddi Árnasyni, yfirlögregluþjóni hjá lögreglunni á Suðurlandi, að lögreglan geti ekki staðfest að Sean hafi farið til Spánar. Hann átti bókað flug og sæti hans var notað en lögreglan vildi ekki staðfesta hvort það hefði verið Sean sem notaði sætið. Ekkert hefur sést til hans á Spáni.
Fréttablaðið ræddi við marga vini Sean sem sögðu hann mjög flughræddan. Þegar Oddur var spurður hvort það teljist ekki skrýtið að flughræddur maður fari skyndilega úr landi með flugi sagði hann málið vera skrýtið í heild sinni.
“Hann hafði verið í sambandi við einstaklinga hér heima og þetta virðist hafa verið mikil skyndiákvörðun að fara, ef hann hefur farið. Mér finnst málið bara allt skrýtið. Ekkert þetta eitthvað umfram annað.“
Er haft eftir Oddi sem sagði lögregluna halda öllum rannsóknarkenningum opnum. Hann sagði málið vera erfitt og flókið, sérstaklega þar sem tilkynning um hvarfið barst ekki fyrr en 18 mánuðum eftir að Sean hvarf.
Nánar er hægt að lesa um málið á vef Fréttablaðsins.