Á sjöunda tímanum í gærkvöldi varð umferðaróhapp í Bústaðahverfi en engin slys urðu á fólki. Tjónvaldur var handtekinn, grunaður um að vera undir áhrifum áfengis og fíkniefna. Hann var vistaður í fangageymslu.
Þrír ökumenn voru handteknir, grunaðir um að vera undir áhrifum fíkniefna. Einn þeirra er aðeins 17 ára og er hann einnig grunaður um vörslu fíkniefna. Foreldrum hans var tilkynnt um málið og barnaverndaryfirvöldum.
Einn ökumaður var handtekinn í nótt, grunaður um ölvun við akstur og akstur gegn rauðu ljósi.
Einn ökumaður var kærður fyrir of hraðan akstur á Reykjanesbraut í Kópavogi en hraði bifreiðar hans mældist 124 km/klst en leyfður hámarkshraði er 80 km/klst.