

Bjarni Helgason, blaðamaður á Morgunblaðinu stingur niður penna í blaði dagsins. Þar ræðir hann það hvernig það er að starfa sem íþróttafréttamaður þegar engar íþróttir eru í gangi.
Engar íþróttir hafa verið síðustu vikur vegna kórónuveirunnar og enn er óljóst hvenær boltinn fer af stað aftur.
,,Það er óneitanlega sérsakt að starfa sem íþróttafréttamaður þessa dagana þegar engar íþróttir eru á dagskrá. Þetta er allt eitthvað svo óraunverulegt, sérstaklega þegar maður skoðar úrslitasíðurnar á netinu þar sem bókstaflega öllum viðburðum og leikjum hefur verið frestað. „Hvernig er það eiginlega, er eitthvað að gera hjá þér í vinnunni?“ er vinsælasta grínið á mig í dag hjá fólki sem ég hitti sjaldan og vantar umræðuefni til þess að brjóta ísinn. „Já blessaður vertu, það er alltaf nóg að skrifa um!“ svara ég oftast á móti og lýg engu um það. Það getur verið krefjandi að kokka upp gott efni þegar það er líka grá lægð yfir landinu,“ skrifar Bjarni í Morgunblaðið.
Bjarni segist oft hafa staðið sig af því að blóta veirunni sem hefur valdið miklum skaða út um allan heim.
,,Ég skal alveg viðurkenna það að ég stend sjálfan mig að því trekk í trekk að blóta þessari blessuðu kórónuveiru. Enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur og allt það og í dag er ég löngu hættur að taka hlutunum sem sjálfsögðum. Það eru forréttindi að geta hitt og faðmað fólkið sitt, alveg eins og það eru forréttindi að geta og fá að fylgjast með íþróttum.“