Gilbert lagði aðra í einelti sem barn – Fann fyrir gríðarlegum létti þegar hann baðst afsökunar
„Þegar ég tók sporin í AA fór ég alveg þangað niður og heimsótti alla,“ segir Gilbert Grétar Sigurðsson í viðtali í þriðjudagsblaði DV. Í viðtalinu ræðir Gilbert meðal annars um deilur hans og Hilmars Leifssonar, uppvöxtinn á Grundarfirði og neysluna.
Hér að neðan birtist kafli úr viðtalinu þar sem Gilbert ræðir meðal annars um æsku sína á Grundarfirði og það þegar hann lagði krakka í einelti. Löngu síðar baðst hann afsökunar á gjörðum sínum og segir hann að það hafi verið gríðarlegur léttir. Hér má lesa viðtalið við Gilbert í heild sinni.
Gilbert er fæddur í apríl, 1981 í Reykjavík. Fimm árum síðar flutti hann ásamt móður sinni, eldri systur og yngri bróður til Grundarfjarðar.
„Mamma vann í sjoppunni og var líka fiskvinnslunni. Hún tók að sér alla vinnu sem bauðst til að halda okkur krökkunum uppi. Fyrst í stað áttum við lítið sem ekkert en það var alltaf matur á borðum. Ári síðar kynntist hún fósturpabba mínum.“
Lífið varð bærilegra þegar tvö sáu um að sjá fjölskyldunni farborða. Fósturfaðir Gilberts var skrifstofustjóri í hraðfrystihúsinu og tók Gilbert að sér eins og hann væri hans eigin sonur. Gilbert var að eigin sögn uppátækjasamt barn og stundaði íþróttir af kappi. Hann eignaðist lítinn gúmmíbát sem hann safnaði fyrir með því að tína dósir. Á þessum gúmmíbát réri hann svo um allan Grundarfjörð.
„Ég réri marga kílómetra á þessum bát, pínulítill polli. Ég styrkti botninn með því að líma slöngubætur undir hann eins og eru á vinnuvélum þannig að ég gæti róið á bátnum upp í allar fjörur án þess að hann myndi springa.“
Úti í firðinum stendur sker upp úr sjónum á fjöru. Þangað kveðst Gilbert hafa róið alla daga er sjór var sléttur.
„Ég átti mjög góðar stundir úti á þessu skeri. Oftast sat ég þarna einn. Það var lítil fjara í skerinu og þar hlóð ég vörðu. Á háflóði flæddi alltaf yfir skerið en þá stóð varðan mín alltaf upp úr sjónum. Ég hélt þessari vörðu við og fannst ég eiga þetta sker og þetta var mitt athvarf. Þarna sat ég með fuglunum og kyrrðinni.“
Gilbert kveðst hafa átt einn góðan og traustan vin á æskuárunum.
„Ég átti ekki samleið með jafnöldrum mínum og átti ekki auðvelt með að vera innan um fólk. Ég var hálflokaður sem gerði að verkum að ég byrjaði að drekka áfengi snemma.
Hafðirðu orð á þér að vera villingur?
„Bæði og. Ég viðurkenni að ég lagði krakka í einelti sem barn. Ég vissi ekki af hverju ég gerði það og ég gerði mér ekki grein fyrir hvað ég væri að gera. Þegar ég varð eldri og þroskaðri áttaði ég mig á sársaukanum sem ég hafði valdið.“
Það sat í Gilbert. Hann langaði oft að safna kjarki og biðja krakkana afsökunar á hegðun sinni.
„Þegar ég tók sporin í AA fór ég alveg þangað niður og heimsótti alla,“ segir Gilbert og bætir við að honum hafi verið vel tekið. „Það voru margir hissa á að ég hefði unnið í sjálfum mér niður í æsku, sumir mundu ekki eftir þessu. Aðrir sögðu að þetta hefði ekki verið svona alvarlegt. Það var ein stelpa sem var gríðarlega þakklát. Það létti af henni mikilli byrði að ég játaði mínar misgjörðir og við féllumst í faðma.“
Gilbert kveðst oft hafa viljað skrifa grein um einelti út frá sjónarhóli geranda. Það sé sjaldgæft að sjá þá sem hafi beitt einelti opna sig.
Var erfitt að biðja afsökunar?
„Þetta var rosalegur léttir. Mig var búið að langa svo lengi að koma þessu frá mér. Þegar ég kynntist AA sporunum var þetta eitt af verkefnunum, að játa misgjörðir sínar. Þá fór ég yfir líf mitt í leiðsögn með sponsor og punktaði hjá mér hverja ég hafði skaðað og gerði hreint fyrir mínum dyrum. Útborgunin sem ég fékk andlega var ótrúleg. Það breytti lífi mínu og vonandi varð líf þeirra sem ég hafði sært bærilegra líka.“