Lést í dag, 53 ára að aldri
Tónlistarmaðurinn George Michael er látinn, 53 ára að aldri. Frá þessu greina breskir fjölmiðlar nú í kvöld, þar á meðal breska ríkisútvarpið, BBC. Þar segir að Michael hafi látist á heimili sínu en dánarorsök hefur ekki verið gefin út.
Michael, sem fæddist þann 25. júní 1963, seldi rúmlega hundrað milljónir platna á frábærum ferli sínum sem tónlistarmaður sem spannaði um fjóra áratugi.
Talsmaður söngvarans staðfesti við breska fjölmiðla að þessi magnaði tónlistarmaður væri látinn. „Það er með sorg í hjarta sem við staðfestum að okkar elskaði sonur, bróðir og vinur, George, lést friðsamlega (e. peacefully) á heimili sínu um jólin.“
Að sögn BBC voru sjúkraliðar kallaðir að heimili söngvarans klukkan 13.42 í dag. Michael sló fyrst í gegn með hljómsveitinni Wham! og gaf hann út sína fyrstu sólóplötu, Faith, árið 1987. Sú plata sló í gegn um allan heim og seldist í rúmlega tuttugu milljónum eintaka. Á ferli sínum kom hann sjö lögum í efsta sæti breska vinsældalistans og átta lögum á topp Billboard-listans. Árið 2008 var George Michael útnefndur einn af áhrifamestu tónlistarmönnum sögunnar í umfjöllun Billboard-tímaritsins.
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=izGwDsrQ1eQ&w=560&h=315]
[youtube https://www.youtube.com/watch?v=E8gmARGvPlI&w=560&h=315]