Afgreiddi jólaglögg á jólamarkaði í Augsburg – Þjálfarinn rekinn í vikunni
Íslenski landsliðsframherjinn Alfreð Finnbogason, sem leikur með FC Augsburg í þýsku Bundesligunni, tók sér pásu frá knattspyrnunni á dögunum og ákvað að útdeila smá jólaskapi. Íbúum Augsburg veitir ekki af að gleyma gengi liðsins á vellinum og finna sér annað til að gleðjast yfir og þar kom Alfreð sterkur inn. Á Twitter-síðu liðsins mátti sjá mynd af Alfreð útdeila jólaglögg á jólamarkaði í borginni. Viðskiptavinirnir virtust kunna vel að meta brjóstbirtuna og Alfreð bar sig fagmannlega að. Aðeins nokkrum dögum síðar var þjálfari Alfreðs rekinn, en liðið situr sem stendur í 13. sæti Bundesligunnar.