Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson bauð kanadískum manni, Serge Arsenault í kaffi á Bessastaði. Serge kom til Íslands til að horfa á tónlistarhátíðina Airwaves. Læknar hafa gefið Serge eitt ár en hann er með krabbamein á lokastigi. Fréttatíminn greindi frá boði Guðna og birti mynd af þeim félögum.
Sjá einnig: Guðni Th. styrkti persónulega ung hjón
Þegar Guðni frétti af Serge setti hann sig í samband við hann og bauð honum í kaffi á Bessastaði. Guðni sendi leigubíl eftir Serge í bæinn og þar drakk hann kaffi með Guðna og forsetafrúnni Elizu Reid.
Guðni hefur slegið í gegn hjá þjóðinni á fyrstu mánuðum í embætti. Nýlega lýsti Guðni því yfir að hans launahækkun frá kjararáði myndi fara í að styrkja gott málefni. Þá er stutt síðan að DV sagði frá því að Guðni hefði millifærst styrk á ungt par sem á fjögurra ára gamlan dreng sem tekst á við hvítblæði.
Sjá einnig: „Ég bað ekki um þessa kauphækkun“
Gunnar Ingi Gunnarsson faðir drengsins sagði við það tilefni að hann hefði sent forsetanum skilaboð á samfélagsmiðlinum í þakkarskyni: „Hann svaraði mér og sagði bara að þetta hefði verið „minnsta málið“ og sendi okkur baráttukveðjur.“