fbpx
Mánudagur 25.ágúst 2025
Fókus

„Ef þú ert að missa þá ertu bara að missa“

Eva gekk í gegnum sársaukafullt fósturlát í sumar- Segir viðhorf heilbrigðisstarfsfólks kuldalegt og tillitslaust

Auður Ösp
Þriðjudaginn 15. nóvember 2016 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Það ætti ekki að láta syrgjandi foreldra, sem eru nú þegar að ganga í gegnum það erfiðasta á lífsleiðinni, hlusta á fallegan hjartslátt, heyra grát í nýfæddu barni og sjá hamingjusama nýbakaða eða verðandi foreldra. Það ætti að vera algjörlega sér aðstaða fyrir fólk sem missir, alveg sama hvenær á meðgöngunni,“ segir Eva Rún Hafsteinsdóttir en hún gekk í gegnum fósturlát í ágúst síðastliðnum. Hún telur viðhorf heilbrigðisstarfsfólks til ástands hennar hafa einkennst af ákveðinni léttúð og segir mikilvægt að tekið sé tillit til þess að foreldrar sem missa barn sitt á meðgöngu ganga oft og tíðum í gegnum sama sorgarferli og foreldrar sem missa barn eftir að það er komið í heiminn. Þá segir hún sárt að ganga í gegnum aðgerðina og þurfa í kjölfarið að deila sjúkrahúsrými með nýbökuðum foreldrum.

Eva er búsett á Akranesi ásamt unnusta sínum og syni en það kom í ljós í júlí síðastliðnum að von væri á nýjum fjölskyldumeðlimi. Gleðin var mikil að sögn Evu sem kveðst aldrei hafa leitt hugann að því að hún gæti hugsanlega misst fóstrið á fyrsta þriðjungi meðgöngunnar.

„Okkur var lengi búið að langa í annað barn þannig að við vorum óskaplega spennt og ég fór alveg á fullt í alls konar plön og pælingar. Það er stundum eins og maður sé staddur í einhverjum draumaheimi þegar maður á von á barni, þú svífur um á bleiku skýi,“ segir hún og bætir við að þó svo hún hafi ekki verið komin langt á leið þá hafi þau ekki hikað við að leyfa sér að velta fyrir sér framtíðinni með væntanlegum nýjum erfingja.

„Ég var bara hluti af þessari prósentu og átti bara að fara heim og reyna aftur.“

Áfallið var því mikið þegar í ljós kom að enginn hjartsláttur var hjá fóstrinu, en það var á elleftu viku meðgöngunnar. Evu var tjáð, oftar en einu sinni, að 10 til 35 prósent allra kvenna gangi í gegnum fósturmissi einhvern tímann á ævinni.

„Þar sem ég var ekki gengin meira en ellefu vikur þá var eins og þetta væri bara ekkert mál í augum lækna og hjúkrunarfólks. Ég var bara hluti af þessari prósentu og átti bara að fara heim og reyna aftur.“

Eva geymir enn sónarmyndina sem staðfesti að fósturlát hefði átt sér stað.
Sónarmynd Eva geymir enn sónarmyndina sem staðfesti að fósturlát hefði átt sér stað.

Hún birti frásögn sína á Facebook nú á dögunum og kveðst aldrei hafa getað órað fyrir viðbrögðunum; tugir stúlkna og kvenna hafa skrifað athugasemd undir færsluna eða sent Evu skilaboð þar sem þær hafa sömu sögu að segja.

Margar þeirra lýsa sömu upplifun af viðhorfi og framkomu heilbrigðisstarfsfólks og finnst það ekki líta sömu augum fósturmissi og barnsmissi. Eva segir augljóst að umræðan um fósturlát sé dulin hér á landi, en engu síður sé ljóst að það sé algengara en marga grunar. Það sjáist á viðbrögðunum við færslunni.

Eva Rún ásamt syni sínum á góðri stundu.
Mæðgin Eva Rún ásamt syni sínum á góðri stundu.

Eva segir að til að mynda hafi ein kona tjáð henni að hún hefði gengið í gegnum sömu upplifun fyrir 27 árum. „Þessi reynsla situr ennþá í henni. Það er frekar ömurlegt að hugsa til þess að nær ekkert hafi breyst á 27 árum hvað varðar viðhorf fólks til þessara mála,“ segir Eva.

Gengu hágrátandi og tómhent út af spítalanum

Gripið verður niður í frásögn Evu af Facebook hér að neðan en þar lýsir hún upplifun sinni af fósturmissinum á einlægan og opinskáan hátt

„En svo gerist það. Bara smá, varla sjáanlegt blóð. Og verðandi móðir veit strax hvað um er að vera. Tárin koma ósjálfrátt niður kinnarnar, hún heldur um magann og biður leigjandann um að íhuga málið vel og vandlega, við getum pottþétt komist að niðurstöðu saman – bara ekki fara frá mér svona snögglega. Verðandi móðir hringir niður á kvennadeild og vill fá að koma í skoðun, ellefu vikur og fimm dagar er víst alltof snemmt.

„Ertu komin svona stutt?“ – „Það er ekkert sem ég get gert, ef þú ert að missa þá ertu bara að missa. Hvað á ég að gera í því?“ – „Farðu heim og fylgstu með blæðingunni, fáir þú hita þá kemurðu aftur“ – „Þú ert bara ein af þessum 10–35 prósentum sem missa fóstur.“

Leigusalinn gat ekki haldið tárunum aftur. Var leigjandinn ósáttur við leiguhúsnæðið? Eftir mikla andvökunótt, litla blæðingu en óstjórnanlega verki var henni boðið að koma í sónar og sjá hvað væri í gangi. Hún hélt að þau hefðu komist að samkomulagi, hún skyldi betrumbæta leiguumhverfið – og það skyldi ekki rifta samningnum.

„10–35 prósent kvenna missa fóstur einhvern tímann á lífsleiðinni – þannig virkar þetta bara stundum“ segir konan, áður en hún skellti geli á magann og skoðaði sig um. Á skjánum sást lítið fóstur, sem myndað hafði lítið fallegt höfuð – en hafði tapað hjartslætti sínum.

Syrgjandi par gekk inn á fæðingardeildina, með ekkasog og ennþá grátandi – tveimur dögum seinna og héldu í vonina um að þetta væri slæm martröð. Þau fengu sér herbergi, þar sem þeim var komið fyrir og svo tók biðin við.

Í næsta herbergi bergmálaði hver hjartslátturinn á fætur öðrum, hjá helling af ánægðum verðandi mæðrum. En ekki hvarflaði að þeim að í næsta herbergi væri syrgjandi par sem grét sárar við hvern hjartsláttinn sem ómaði.

Á ganginum frammi bergmálaði grátur nýfæddra barna, ásamt himinlifandi ættingjum sem streymdu inn með gjafir handa móður og barni. En syrgjandi parið, sem misst hafði leigjandann sinn urðu ansi reið og sár yfir því að þurfa að deila rými með fólki sem var að upplifa bestu tíma lífs síns.

Það ætti ekki að láta syrgjandi foreldra, sem eru nú þegar að ganga í gegnum erfiðasta á lífstíðinni – hlusta á fallegan hjartslátt, heyra grátur í nýfæddu barni og sjá hamingjusama nýbakaða/verðandi foreldra. Það ætti að vera algjörlega sér aðstaða fyrir fólk sem missir, alveg sama hvenær á meðgöngunni.

Inn labbar læknirinn, sex tímum eftir áætlaðan aðgerðartíma. „Svona er lífið, eins og sagt er þá missa 10–35 prósent kvenna fóstur fyrir tólftu viku og stundum þarf aðgerð til að fjarlægja fóstrið – eins og í þínu tilfelli þar sem fóstrið vill ekki fara.“

Fyrir þessu fólki vorum við ekkert meira heldur en bara einhver prósentutala. Prósentutala sem hafði hlakkað meira til þess að eignast þetta barn heldur en einhvað annað. Prósentutala sem ennþá í dag, þremur mánuðum seinna syrgir litla fallega leigjandann sem hefði getað átt yndislegt leiguhúsnæði í níu mánuði, ef það hefði ekki þurft að gera aðra mikilvæga hluti á þessari stundu.

Þegar parið labbaði út af fæðingardeildinni, hágrátandi og tómhent – labbaði annað par út af deildinni, brosandi og hamingjusöm með pínulitla angann sinn í fallega heimferðarsettinu og risastórum bílstól.“

Mikilvægt að sýna nærgætni og virðingu

Eva segir undanfarna mánuði hafa einkennst af miklum sveiflum, líkamlega og ekki síður andlega.

„Þetta er búinn að vera afskaplega erfiður tími og ég er ennþá í hálfgerðum rússíbana. Það hjálpar samt mikið að tala um hlutina. Mér fannst ég alltaf hrikalega mikið ein í þessu öllu saman,“ segir hún.

Parið er staðráðið í að eignast barn í nánustu framtíð.

„Reyndar er það þannig að einn daginn þrái ég ekkert meira en að eignast barn og svo næsta dag hugsa ég um að þurfa hugsanlega að ganga í gegnum þetta allt aftur og þá vil ég það alls ekki.“

„Það má gjarnan sýna foreldrum í þessari stöðu meiri nærgætni.“

Eva kveðst óska þess að umræðan um fósturlát muni opnast frekar í samfélaginu og að fólk innan sjúkrastofnana sýni frekari nærgætni í garð foreldra sem þurfa að ganga í gegnum þessa erfiðu reynslu.

„Það þarf að taka meira tillit til þarfa þeirra foreldra sem missa barn sitt á meðgöngu. Það má gjarnan sýna foreldrum í þessari stöðu meiri nærgætni, því þeir eru ekki síður að upplifa sorg.

Þú átt ekki að þurfa að vakna eftir þessa aðgerð og vera í sama herbergi og kona sem er nýbúin að eignast barn. Það er virkilega erfitt að horfa upp á gleði og eftirvæntingu hjá öðrum eftir að hafa gengið í gegnum jafn hörmulegan missi. Ég óska ekki neinum að þurfa að upplifa þetta.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 3 dögum

Sydney Sweeney svarar fyrir sig – Segir aðallega konur gagnrýna hana

Sydney Sweeney svarar fyrir sig – Segir aðallega konur gagnrýna hana
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lína Birgitta borðar alltaf það sama í morgunmat – „Ástæðan er mjög einföld“

Lína Birgitta borðar alltaf það sama í morgunmat – „Ástæðan er mjög einföld“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Ég er bara með þetta uppáskrifað frá Kristrúnu Frosta. Vertu ekki að æsa þig yfir þessu“

„Ég er bara með þetta uppáskrifað frá Kristrúnu Frosta. Vertu ekki að æsa þig yfir þessu“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Ég hef verið kölluð barnaníðingur því kærasta mín lítur út eins og 13 ára drengur“

„Ég hef verið kölluð barnaníðingur því kærasta mín lítur út eins og 13 ára drengur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hanna Kristín og Atli Freyr orðin hjón

Hanna Kristín og Atli Freyr orðin hjón
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hjálmar Örn játaði 40 ára gamalt bernskubrek – „Síðasti þáttur fyrir sumarfrí kom á DV með rúðurnar og löggumálið“

Hjálmar Örn játaði 40 ára gamalt bernskubrek – „Síðasti þáttur fyrir sumarfrí kom á DV með rúðurnar og löggumálið“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Ástarævintýri Katy Perry og Justin Trudeau á enda?

Ástarævintýri Katy Perry og Justin Trudeau á enda?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Var rukkuð 44 þúsund krónur á hárgreiðslustofunni – „Verðlag á Íslandi er orðið eitthvað illa skakkt“

Var rukkuð 44 þúsund krónur á hárgreiðslustofunni – „Verðlag á Íslandi er orðið eitthvað illa skakkt“