fbpx
Sunnudagur 28.apríl 2024
Fókus

VIÐTAL: „Er ástin geðveikin þegar maður getur ekki sofið, ekki borðað, hugsar ekki um annað?“

Margrét Gústavsdóttir
Föstudaginn 27. apríl 2018 11:11

Gummi: Ef trúðurinn er úti er ég hættur í leikhúsi! Trúðurinn er grunnur allrar leiklistar.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í kvöld, föstudaginn 27. apríl, fer fram lokasýning á kabarett verkinu Ahhh í Tjarnarbíói. Verkið er flutningur á textum Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur en það eru meðlimir leikhópsins RaTaTam sem sjá um túlkunina og þar er ástin í forgrunni.

Um er að ræða sérstaka afmælissýningu en skáldkonan Elísabet fagnaði sextugsafmæli á dögunum.

Að sýningunni lokinni mun Jón Viðar Jónsson leiða umræður um verkið.

Margrét Gústavsdóttir hitti þau Albert Halldórsson, Guðmund Inga Þorvaldsson, Halldóru Baldursdóttur og Laufey Elíasdóttur og tók þau í létta yfirheyrslu um þessa rómuðu sýningu.

Verkið hefur fengið frábæra dóma. Hvernig leggst það í ykkur að nú sé bara pása framundan? Ekkert Ahhh í bili?

Laufey, Albert og Halldóra eru í góðum fílíng fyrir sýninguna í kvöld.

Dóra: Það hafa verið algjör forréttindi að fá svona góðan meðbyr með sjálfstæðu leikhúsi. Reyndar er engin pása framundan hjá mér, ég á fer á fæðingardeildina á næstu vikum en það er aðal ástæða þess að við erum með lokasýningu núna í apríl. Ég verð hinsvegar með bumbuna út í loftið og hangandi niður úr loftinu í kvöld. Hvað hópinn sjálfan varðar þá er engin pása framundan þar. Við erum að græja þriðja verkið okkar, undirbúa ferð með Suss! (heimildaverk um heimilisofbeldi) til Færeyja, gera útvarpsþætti og fleira spennandi.

Laufey: Já einmitt. Það er sko lítið frí framundan hjá mér. Ég er nefnilega að fara vinna sem flugfreyja hjá Icelandair og verð í því alveg fram á vetur líka.

Gummi: Ég vil að sjálfsögðu alltaf meira. Manni langar til að sem flestir sjái þetta frábæra stykki svo vonandi er þetta bara alls ekki síðasta sýningin á Ahhh!

Albert: Sammála. Þetta er búið að vera mjög skemmtilegt ferli og ég er til í meira um leið og Dóra er komin af fæðingardeildinni.

„Ef trúðurinn er úti er ég hættur í leikhúsi! Trúðurinn er grunnur allrar leiklistar.“ – Gummi

Undirtitill verksins er Ástin er að halda jafnvægi, – nei fokk, ástin er að detta. Hvaða rugl er þetta? Eða er þetta kannski ekkert rugl?

Dóra: Þetta er setning frá Elísabetu Jökulsdóttur sem á alla textana í Ahhh…. Ég fíla þessa setningu og held hún hafi undirtón sem sé tengdur mörgum verkum hennar. Elísabet, eða Ella Stína eins og hún er kölluð, fjallar mikið um ástina, vöntun sína á ást og ofbeldið í ástinni. Ég hef alveg upplifað ást sem er að detta og þá meiði ég mig og fæ marbletti á hnén og fórnarlambið ég á svo bágt að græt og þrútna í framan eins og í alvarlegu bráðaofnæmiskasti. En svo spyr ég mig, var þetta raunveruleg ást? Ég held að ástin sé í rónni, jafnvæginu. Ég held að ástin sé skilyrðislaus á alla vegu sé hún sönn. Misskilin ást fær mann til að detta og meiða sig. Eftir rannsóknina á ofbeldi í verkinu Suss! áttaði ég mig á því að barn sem elst upp við einhverskonar skort á ást elur af sér ótta sem getur skapað meðvirkni og markaleysi í samskiptum á fullorðinsárum sem í verstu tilfellum brýst út í ofbeldi eða varnarleysi. Ástin er æðisleg og við eigum að sprengja hana út yfir alla og hafa hugrekki til að sýna hana skilyrðislaust. Þá fyrst held ég að við breytum heiminum.

Laufey: Þetta er sko ekkert rugl, bara hinn hreinasti sannleikur.

Gummi: Við völdum þetta sem undirtitil verksins vegna þess að þetta er bara kjarninn í ástarbröltinu. Hvenær er ástin nærandi? Hvenær gefur hún okkur kjölfestu? Er hún leiðinleg ef hún er þess eðlis? Er ástin geðveikin þegar maður getur ekki sofið, ekki borðað, hugsar ekki um annað? Hvort er ástin að halda jafnvægi eða að láta sig falla? Bara eins og margt annað eftir Ellu Stínu, alveg brilliant!

Albert: Mér finnst þetta bara vera satt og fallegt.

„Einhver sagði að við værum eins og hirðfíflin, – þau einu sem hafa leyfi til að segja sannleikann.“ – Dóra

Hvað er það við þessa leiksýningu sem gerir hana öðruvísi en aðrar?

Dóra: Erfið spurning. Eru ekki allar leiksýningar öðruvísi en aðrar? Kannski er það kabarettformið sem er öðruvísi en ég hef áður séð í leikhúsi á Íslandi. Við erum að leika okkur með það form, setjum verkið upp sem brotinn kabarett þar sem við syngjum, dönsum og tjáum ást okkar með orðum Elísabetar sem eru full af húmor, djúpri sorg, heiðarleika, ást og einlægni. Ég er ekki alveg viss hvað gerir hana öðruvísi eða hvort eitthvað geri hana öðruvísi. En ég hef heyrt að hún sé óvænt, áhorfandinn viti aldrei hvað gerist næst. Kannski er það svoldið annað en áhorfendur eru vanir í leikhúsinu á Íslandi?

Laufey: Þetta er ljóverk og prósi á sviði sem er sælgæti fyrir augu og eyru.

Gummi: Þetta er format sem erlendis hefur verið kallað „Broken Cabarett“. Ég held að það hafi aldrei verið gert áður hérlendis með þessum hætti. Við tökum texta sem eru ekki skrifaðir fyrir leikhús og sviðsetjum þá með öllum þeim meðölum sem leikhúsið hefur upp á að bjóða. Það er ekki dramatísk framvinda og ekki eiginleg karaktersköpun heldur þjónum við þeim myndum sem ljóðin bregða upp og sýnum þannig fjölbreytileika ástarinnar í gegnum augu Ellu Stínu.

„Mér finnst þetta töff, ég væri alveg til í að fara í þessum búningi í Bónus og kaupa mér Svala.“ – Albert

Dóra: …ég hef heyrt að hún sé óvænt, áhorfandinn viti aldrei hvað gerist næst.

Hvað með þessa mime-trúðabúninga? Er þetta ekki komið úr tísku?

Dóra: Hahaha! Var þetta einhverntímann í tísku!? Einhver sagði að við værum eins og hirðfíflin, – þau einu sem hafa leyfi til að segja sannleikann í hirðinni meðan öll hiðin hagar sér eftir settum reglum samfélagsins. Hirðinn leikur leikinn og er með stærstu og þykkustu grímurnar, nema hvað að þær eru bara ósýnilegar. Hirðfíflin hafa sýnilegar grímur, segja sannleikann og haga sér alls ekki vel en spegla samtímann og koma upp um tilfinningalíf og dýpstu leyndarmál fólksins í hirðinni.

Laufey: Mime fellur aldrei úr tísku og hvað þá kabarettinn!

Gummi: Ef trúðurinn er úti er ég hættur í leikhúsi! Trúðurinn er grunnur allrar leiklistar.

Albert:  Mér finnst þetta töff, ég væri alveg til í að fara í þessum búningi í Bónus og kaupa mér Svala.

Stendur til að þýða Ahhh yfir á ensku og henda sér í útrás?

Dóra: Frábær hugmynd, við þýddum Suss! á ensku og ferðuðumst með hana. Kannski ættum við að gera eins með Ahhh… ég set þessa hugmynd í hugmyndapottinn okkar hjá RaTaTam.

Gummi: Ég elska að leika þessa sýningu og elska að ferðast

Albert:  Já góð hugmynd, það væri áhugavert!

Hvað með fólk sem er pínu hrætt við list og vill bara fara á Mamma Mía og þannig í leikhúsi. Á verkið erindi til þeirra? Og ef svo… hvernig?

Dóra: Geggjuð spurning! Mamma Mía var ein flottasta listasprengjan á síðasta ári svo ef einhver var hræddur við þá sýningu þá ætti viðkomandi að hafa læknast. Ahhh… er alger glimmersprengja með orðum og óvæntum atburðum. Allir ættu að skella sér!. Einhver gagnrýnandi sagði að áhorfendur hefðu gengið út úr salnum ástfangnir upp fyrir haus eftir sýninguna því: „Hamingjan er að vera sigraður af augnablikinu“ sem Ahhh… væri svo sannarlega að fullnægja.

Laufey: Já vá, það er allavega fullt af frábærri tónlist í sýningunni.

Gummi: Þessi sýning er fullkominn stökkpallur úr Mamma Mía yfir í obbolítið meira krefjandi verk fyrir áhorfendur… fullt af músík, húmor og litum og ekki nema 80 mínútur sem er mjög þægileg tímalengd fyrir leiksýningu.

Albert:  Já auðvitað á verkið erindi til allra! Við erum að fjalla um ástina og hana þekkja vonandi flestir. Elísabet sýnir allan skala ástarinnar í ljóðum sínum og það ættu allir að geta tengt við fullt í þessu verki.

Eitthvað að lokum? 

Dóra: „Ég ætlaði ekki að svara ef hann myndi hringja, en svo hringdi hann ekki og þá varð ég brjáluð“

Laufey: „Góði guð, í gær langaði mig til þess að hringja í einhverja karlmenn… Amen“

Gummi: „Ert þú búinn að fá öll fiðrildin sem ég er búinn að vera að senda þér“?

Albert: „Leyfðu mér að vera fljótandi. Leyfðu mér að falla.“

STIKLA

Leikhópurinn RaTaTam

Leikstjóri: Charlotte Boving.
Textar: Elísabet Jökulsdóttir.
Búningar og Leikmynd: Þórunn María Jónsdóttir.
Hljóðheimur: Helgi Svavar Helgason.
Hreyfingar: Hildur Magnúsdóttir.
Tónlist: Frumsamin eftir leikhópinn RaTaTam.
Ljósahönnun: Arnar Ingvarsson.
Leikarar: Albert Halldórsson, Guðmundur Ingi Þorvaldsson,
Halldóra Baldursdóttir & Laufey Elíasdóttir.
Tækniaðstoð: Stefán Vigfús Ingvarsson.
Framkvæmdastjóri RaTaTam: Halldóra Rut Baldursdóttir.
Framkvæmdarstjórn Ahhh: Hildur Magnúsdóttir & Gríma Kristjánsdóttir.
Ljósmyndir: Saga Sigurðardóttir.
Myndbönd: Ragnar Hansson.
Umbrot og myndbönd: Alexandra Baldursdóttir.
Önnur aðstoð: Guðrún Bjarnadóttir & Íris Stefanía Ágústsdóttir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Enn einn Snapchat-perrinn
Fókus
Í gær

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“

Segja þessa fæðu ekkert hafa með íslenska karlmennsku að gera – „Ertu maður eða mús?“
Fókus
Í gær

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði

Sophia Bush kemur út úr skápnum – Blæs á kjaftasögurnar um hvernig nýja sambandið byrjaði
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun

Þjáningar Sævars – Nýtt lag og fjársöfnun
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leið eins og Mary Poppins

Leið eins og Mary Poppins
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kanye West ætlar í klámið

Kanye West ætlar í klámið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda

Leitar sér hjálpar vegna Ozempic notkunar eftir ákall áhyggjufullra aðdáenda