

Það er aðfangadagur og hjónin á Kölduhömrum búa sig undir jólahaldið. Handan áramóta eiga þau von á sínu fyrsta barni og spennan í kviðnum smitar andrúmsloftið. Snjórinn hleðst upp og vegurinn út úr firðinum hefur ekki enn verið ruddur. Þegar kýrin á bænum tekur sótt hrökkva dyr upp á gátt sem ekki verður lokað.
Frumbyrjur er margbrotin og nístandi saga um hversdagsleg kraftaverk og ástir sem rata ekki svo auðveldlega í orð.
Frumbyrjur er fimmta skáldsaga Dags Hjartarsonar, sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ljósagang (2022) og einróma lof fyrir Sporðdreka (2024).

Bókin fjallar um hjónin Margréti og Guðmund sem búa ein á afskekktu býli í norðlægum firði á Vestfjörðum. Hinu megin við fjörðinn sést til næsta bæjar þar sem hjónin Gunnhildur og Þorvaldur búa. Sagan gerist á níunda áratugnum og lífsbaráttan og hversdagurinn hjá þeim Margréti og Guðmundi felst í einfaldri rútínu þar sem sinna þarf skepnum á litlu fjárbúi, fjárbókhaldinu og heimilisstörfum. Ljóst er að Guðmundur elskar konu sína heitt en ítrekað á hann í mesta basli við sjálfan og innri óróleika til að geta komið tilfinningum sínum í orð.
Eftir 15 ára samband eiga hjónin von á sínu fyrsta barni, sem koma á í heiminn fljótlega á nýju ári. Kýrin Skjalda er einnig kálffull og hafa þær Margrét gengið samstíga í að skapa nýtt líf. Skjalda tekur síðan sótt á aðfangadag og setur fábrotið jólahald hjónanna úr skorðum. Síðar í bókinni er barnsfæðingin og það er kafli sem er einstaklega vel skrifaður og tekur á allar tilfinningar lesandans.
Bókin er ekki gallalaus, í henni er rakin hliðarsaga úr fortíð Guðmundar og hefði í raun mátt sleppa henni alfarið. Hún bætir engu við aðalsöguna, samband Guðmundar og Margrétar. En hér er það einfaldlega minn smekkur sem talar. Gallinn er þó ekki það stór að hann skyggi á þá staðreynd að Frumbyrjur er ein af bestu bókunum í þessu jólabókaflóði í það minnsta af þeim sem ég hef lesið.
Frumbyrjur er ekki flókin saga eða löng bók í blaðsíðum talið, en sagan lifir með lesandanum löngu eftir að lestri er lokið. Sem saga sem gerist að jólum og vetri til minnir hún á hina klassísku Aðventu eftir Gunnar Gunnarsson og ég gæti alveg séð fyrir mér að lesa Frumbyrjur árlega á aðventunni undir hlýju teppi með kakó og konfekt meðan snjórinn blæs úti. Ég var einfaldlega föst í afskekktum firðinum með hjónunum í fábrotnu lífi þeirra þar sem snjallsímar og tölvur pípa ekki allan daginn og taldi með þeim niður í settan fæðingardag.
Frumbyrjur er ljúfsár og heillandi saga um mannlegt eðli og ástina sem ósögð er.