
Maður í Louisville, Kentucky, sem hefur öðlast töluverðar vinsældir fyrir kennslumyndbönd sín í fjölskylduvænu handverki á Youtube, hefur nú verið ákærður fyrir að dreifa barnaníðsefni.
Maðurinn hefur kallað sig „Mr. Crafty Pants“ á Youtube en búið er að taka niður Youtube-rásina hans. Maðurinn heitir réttu nafni Michael David Booth, og er 39 ára gamall, en hann hafði um 600 þúsund fylgjendur á Youtube.
Booth var handtekinn þann 22. október grunaður um að dreifa klámfengnum myndum af börnum á skilaboðaforritinu Kik. Um er að ræða alls 29 meint brot sem varða dreifingu á myndefni sem sýnir börn við kynferðislegar aðstæður.
Lögreglu barst ábendingar frá samtökum sem berjast gegn ofbeldi gegn börnin og heita „National Center for Missing and Exploited Children“, um að skoða reikning Booth á Kik. Leitarheimild sem lögregla fékk leiddi í ljós að IP tala sem notuð hafði verið til að senda opinskáar myndir af börnum dagana 5. og 7. ágúst var rakin til heimilis Booth.
Booth er í fangelsi en getur fengið sig lausan gegn 100.000 dala tryggingu. Honum hefur verið bannað að hafa samband við ungmenni undir lögaldri og nota internetið.
Fjallað er um málið á sjónvarpsstöðinni WDRB News og rætt við nágranna Booth sem urðu fyrir miklu áfalli er lögregla stormaði inn á heimili hans og þau fréttu um hvað hann er sakaður. Um er að ræða rólegt og friðsamt íbúahverfi.
Sjá nánar í spilaranum hér fyrir neðan: