fbpx
Mánudagur 03.nóvember 2025
Pressan

13 ára gömlum var honum rænt af heimili sínu, pyntaður í 43 tíma og svo skotinn í bakið – lifði af en situr eftir stórskuldugur

Pressan
Sunnudaginn 2. nóvember 2025 20:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kvöldið 29. júlí árið 1995 dottaði hinn 13 ára gamli Thadius Phillips á sófanum heima hjá sér í Wisconsin. Hann vaknaði þegar einhver lyfti honum upp. Hann hélt fyrst að þetta væri pabbi sinn sem var vanur að bera hann upp í rúm þegar hann sofnaði í sófanum.

Næst vissi Thadius, eða Thad eins og hann var kallaður, af sér fyrir utan húsið sitt. Með honum var ókunnugur drengur á unglingsaldri. Strákurinn var vingjarnlegur og spurði hvort Thad gæti aðstoðað sig með vandamál. Thad var nývaknaður og illa áttaður og fylgdi stráknum á heimili hans skammt frá. Þar kynnti strákurinn sig, sagðist heita Joe. Joe sagðist vera að halda partý og tilkynnti Thad að þeir ættu sameiginlega vini sem væru á leiðinni.

Joe bað Thad um að koma inn í herbergið sitt þar sem hann ætlaði að sýna honum módel bifreiðar sem hann sagðist vera að safna. Thad samþykkti enda óraði hann ekki fyrir því sem beið hans.

Þegar þeir voru komnir inn í svefnherbergið var Joe ekki lengur vinalegur. Hann greip Thad, fleygði honum á rúmið, hoppaði á hann, greip í ökkla hans og sneri þeim þar til beinin brotnuðu. Joe hét fullu nafni Joseph Clark. Hann var 17 ára gamall og elskaði ekkert heitar en að heyra bein brotna.

43 klukkustunda martröð

Joe hélt Thad nauðugum í 43 klukkustundir þar sem hann mölbraut beinin í fótum hans.

Pyntingarnar voru ekki stöðugar. Stundum þóttist Joe vera vinur Thad og bar hann að sófanum og leyfði honum að horfa með sér á sjónvarpið. Hann sagði Thad frá fjölskyldu sinni, lífi sínu og loks játaði hann að hann hefði þegar myrt tvo aðra drengi því hann elskaði að brjóta bein. Þegar Joe þurfti að yfirgefa heimili sitt læsti hann Thad inn í skáp í svefnherbergi sínu.

Kvöldið 31. júlí fór Joe í partý en læsti Thad fyrst inn í skápnum. Thad ákvað að nú ætlaði hann að sleppa. Hann notaði rafmagsngítar til að brjóta hurðina á skápnum. Hann skreið að stiganum, kastaði sér niður, fann síma og hringdi á lögreglu. Allt þetta tók töluverðan tíma enda missti hann ítrekað meðvitund af sársauka. Þegar lögregla kom á vettvang var Thad við dauðans dyr enda með mölbrotna fætur og innvortis blæðingar.

Við húsleit fann lögregla vísbendingar um að Joe hefði ætlað sér að handsama og pynta fleiri drengi. Hann var með lista með nöfnum rúmlega tíu drengja sem bjuggu í nágrenninu. Þar hafði Joe skrifað niður hvenær hann ætlaði að ræna drengjunum og hvað hann ætlaði að gera við þá.

Lifði af en situr eftir stórskuldugur

Við skýrslugjöf sagði Thad lögreglunni að Joe hefði játað að hafa myrt dreng að nafni Chris árinu áður. Lögreglu tókst þannig að tengja Joe við morð 14 ára drengs, Christian Steiner, sem hafði horfið af heimili sínu 4. júlí árið 1994. Foreldrar Christians vöknuðu að morgni þess dags og sáu að einhver hafði brotist inn í svefnherbergi hans. Líkamsleifar hans fundust fimm dögum síðar í Wisconsin-ánni. Dánarorsök var drukknun en eins var hann með fjölda beinbrota. Lögregla fann vitni sem Thad hafði játað fyrir að hafa myrt annan dreng, en ekki tókst að finna út hvaða drengur það var.

Joe var dæmdur í 100 ára fangelsi í október árið 1997 fyrir barnarán, líkamsmeiðingar og tilraun til manndráps. Hann var síðar dæmdur í 50 ára fangelsi fyrir morð Christian Steiner.

Þegar Thad komst undir læknishendur var hann nær dauða en lífi. Hann þurfti að gangast undir fjölda skurðaðgerða þar sem læknar freistuðu þess að púsla fótum hans aftur saman. Eftir mikla endurhæfingu tókst Thad að ganga aftur, en hann er þó enn haltur.

Til að bæta gráu ofan á svart þá lauk raunum Thad ekki þegar hann slapp undan Joe, sem hefur fengið viðurnefnið Beinbrjóturinn. Áður en aðalmeðferð fór fram í máli ákæruvaldsins gegn Joe hringdi dyrabjallan hjá Thad. Fyrir utan var vinur Joe sem skaut Thad tvisvar í bakið til að koma í veg fyrir að hann gæti borið vitni í málinu.

Thad lifði aftur af og Joe var sakfelldur og dæmdur til að greiða Thad rúmlega 2 milljarða í skaðabætur en var þó enginn borgunarmaður og Thad fékk aldrei að sjá krónu. Thad er því stórskuldugur út af öllum læknismeðferðunum.

Vinir hans halda nú úti GoFundMe-síðu til að hjálpa Thad með reikningana.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út
Pressan
Fyrir 5 dögum

Ætlar að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með eftirlitsmönnum

Ætlar að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með eftirlitsmönnum
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vildi ógleymanlega afmælisveislu svo hún réði skordýrasérfræðing

Vildi ógleymanlega afmælisveislu svo hún réði skordýrasérfræðing
Pressan
Fyrir 6 dögum

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt