fbpx
Mánudagur 03.nóvember 2025
Pressan

Fyrrverandi eiginkonur loddara og raðeltihrellis tóku höndum saman til að vara aðrar konur við – „Ekki byrja með Brandon“

Pressan
Sunnudaginn 2. nóvember 2025 22:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fyrir rúmum áratug kynntist Amber Rasmussen manni í gegnum Tinder. Brandon Johnson heillaði hana upp úr skónum og sagði hún því já þegar hann fór á skeljarnar eftir aðeins nokkurra mánaða samband. Helsti gallinn var sá að Brandon átti fyrrverandi eiginkonu, Athenu Klingerman, sem var eitthvað vanstillt. Athena og Brandon áttu saman dóttur svo hann þurfti að eiga samskipti við hana. Amber lét þetta ekki fæla sig frá draumaprinsinum, jafnvel ekki þegar Athena byrjaði að áreita hana í gegnum samfélagsmiðla.

Árið 2017 gekk Amber að eiga Brandon, en hjónabandið breyttist fljótt í martröð. Það kom á daginn að Athena hafði ekkert verið að áreita Amber heldur var það Brandon sjálfur. Brandon þóttist vera fyrrverandi eiginkona sína á netinu til að tryggja að hans fyrrverandi og núverandi færu ekkert að bera saman bækur sínar. Því Athena var ekkert vanstillt, en það var Brandon hins vegar.

Vara aðrar konur við

Athena og Amber eru perluvinkonur í dag og vinna að því hörðum höndum að vara aðrar konur við Brandon. Árið 2020 byrjuðu þær með hlaðvarpið: Ex-Wives Undercover og nú stíga þær fram í heimildaþáttunum: Ekki byrja með Brandon, eða Don’t Date Brandon.

Brandon hefur í gegnum tíðina verið úrskurðaður í rúmlega 17 nálgunarbönn gegn sex mismunandi þolendum. Hann situr sem stendur í fangelsi eftir að hafa játað á sig tilraun til manndráps og líkamsárás gegn fyrrverandi kærustu árið 2023. Hann á rétt á reynslulausn árið 2027.

Athena segir í samtali við Variety að hún og aðrir þolendur Brandons séu meðvitaðir um að það sé hættulegt að stíga fram í heimildarþáttunum, enda Brandon líklegur til að hefna sín. Þær sætta sig við þá áhættu enda mikilvægt að vara aðrar konur við honum.

„Við höfum heyrt það út undan okkur að hann sé með einhver áform. Hann er að hugsa sín næstu skref, þó að hann sé enn í fangelsi. Það kemur ekki á óvart enda trúir hann sínum eigin lygum. Honum finnst hann ekki hafa gert nokkuð rangt. Hann heldur að fyrrverandi eiginkonur hans hafi gert hann snarbilaðan. Hann kemur með afsakanir í staðinn fyrir að taka ábyrgð á eigin hegðun. Svo já, það er skuggalegt að hugsa til þess að hann sleppi úr fangelsi.“

Loksins dæmdur í fangelsi

Þolendur Brandons lýsa því hvernig hann hafi heillað þær upp úr skónum en svo hafi gríman á endanum fallið. Brandon var þeim ótrúr, hann er raðlyginn, stjórnsamur með eindæmum og sættir sig ekki við höfnun. Ekkert er honum heilagt. Til dæmis laug hann því að Amber að hann væri með hvítblæði til að koma í veg fyrir að hún uppgötvaði hjúskaparbrot hans.

Nokkrir þolendur hans greina frá því að hann hafi beitt þær umsáturseinelti og nýtt til þess tækni á borð við eftirlitsmyndavélar, staðsetningartæki og hlerunarbúnað. Á stefnumótasíðum kom hann gjarnan fram undir fölsku nafni og þóttist þar vera margfaldur milljónamæringur.

Meðal þess sem hann hefur verið ákærður fyrir eru ítrekuð brot á nálgunarbanni, fjársvik, heimilisofbeldi, tryggingasvik, þjófnaður, barnaverndarbrot, flótti undan réttvísi og fleira. Þessum málum hefur oftast lokið með sektargerð, samfélagsþjónustu eða skilorði.

Svo kom Rachel til sögunnar. Hún byrjaði með Brandon í mars árið 2021. Sambandið varð ekki langlíft en þegar Rachel reyndi að slíta því neitaði Brandon að sleppa takinu. Hann elti hana á röndum, kom fyrir staðsetningartæki í bifreið hennar, vina hennar og sonar hennar og setti upp eftirlitsmyndavél á heimili hennar. Hann var úrskurðaður í nálgunarbann gegn henni í febrúar árið 2022 en braut gegn því nokkrum vikum síðar með því að brjótast inn til hennar um miðja nótt og nauðga henni.

Hann braust svo aftur inn til Rachel mánuði seinna en að þessu sinni var hún ekki ein. Hjá henni var vinur hennar, Austin, sem kom henni til varnar. Brandon var handtekinn og við leit í bifreið hans fundust munir sem gáfu til kynna að hann hefði ætlað að nema Rachel á brott og nauðga henni aftur. Hann var ákærður og ákvað að játa sök til að fá vægari refsingu.

Segir réttarkerfið hafa brugðist

Þrátt fyrir að hafa játað sök segist Brandon vera saklaus. Hann vill meina að hann hafi ekki verið með réttu ráði þegar hann braut gegn Rachel, enda hafi fyrrverandi eiginkonur hans rænt hann geðheilsunni og eins hafi hann orðið fyrir höfuðáverka árið 2021 þegar lögreglumaður réðst á hann. Brandon segir áverkana hafa umbreytt persónuleika sínum og varla sé hægt að kenna honum um það.

Hann skrifaðist á við blaðamann The Sacramento Bee úr fangelsinu árið 2023. Blaðamaðurinn segir að flest það sem Brandon sagði henni hafi reynst lygar, allt nema eitt. Brandon hafi tekið fram að réttarkerfið hafi brugðist í hans tilfelli. Hann hafi ítrekað verið kærður fyrir hitt og þetta og þó að sakaferillinn væri orðinn töluverður hafi hann aldrei verið dæmdur í fangelsi. Það hefði verið hægt að stöðva hann mun fyrr en raunin varð. Eins hafi margt bent til þess að hann væri vanstilltur og þyrfti aðstoð en réttarkerfið gerði ekkert til að hjálpa honum.

Áreitið heldur áfram

Blaðamaðurinn bætti við að jafnvel þó Brandon sé í fangelsi hafi þolendur hans engan frið fengið, sérstaklega barnsmóðir hans Athena. Yfir hana rigni barnaverndartilkynningum frá aðilum á vegum Brandons. Eins hafi honum tekist að sannfæra stjórnvöld um að Athena skuldi honum meðlag sem varð til þess að hluta launa hennar var haldið eftir. Allt þetta skipulagði hann úr fangaklefanum sínum. Blaðamaður ræddi við fimm þolendur hans sem allir tóku fram að Brandon væri fremstur meðal loddara. Hann hafi meira að segja ítrekað sannfært lögreglumenn, sem voru kallaðir til þegar hann beitti fyrrverandi maka sína heimilisofbeldi, um að hann væri raunverulega fórnarlambið.

Ein fyrrverandi kærastan sagði blaðamanni að hún væri skíthrædd við Brandon, jafnvel þó hann væri í fangelsi.

„Hann getur blekkt hvern sem er.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 4 dögum

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út

Tekinn af lífi fyrir hrottalegt morð á nágranna sínum – Svona leit síðasta máltíðin hans út
Pressan
Fyrir 5 dögum

Ætlar að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með eftirlitsmönnum

Ætlar að senda eftirlitsmenn til að fylgjast með eftirlitsmönnum
Pressan
Fyrir 5 dögum

Vildi ógleymanlega afmælisveislu svo hún réði skordýrasérfræðing

Vildi ógleymanlega afmælisveislu svo hún réði skordýrasérfræðing
Pressan
Fyrir 6 dögum

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt

Öflugasti fellibylur ársins nálgast og ferðamenn óttast um líf sitt