

Fyrrverandi sóknarmaður Manchester United, Dimitar Berbatov, hefur tekið upp hanskann fyrir Florian Wirtz, nýjan leikmann Liverpool, og spáir honum glæsilegri framtíð á Anfield þrátt fyrir erfiða byrjun.
Í Rio Ferdinand Presents hlaðvarpinu lýsti Búlgarinn yfir mikilli aðdáun á þýska landsliðsmanninum, sem kom frá Bayer Leverkusen í sumar fyrir 116 milljónir punda.
„Ég elska hann, hann er frábær leikmaður,“ sagði Berbatov.
„Ef hann fær þolinmæði og gott fólk í kringum sig, fjölskyldu og umboðsmenn sem styðja hann, þá mun hann blómstra. Þjálfarinn sér gæðin hans, allir sjá þau. Hann þarf bara tíma til að aðlagast, og ég er viss um að hann verði frábær.“
Berbatov, sem skoraði 54 mörk í fjögurra ára dvöl sinni hjá Manchester United, fór jafnframt lofsamlegum orðum um leikstíl Wirtz og líkti honum við eina hetju leiksins Luka Modric, sem er enn að spila með AC Milan, fertugur að aldri.
„Hann sér leikinn svo vel, finnur svæði, veit hvar hann á að staðsetja sig, snertingin á boltann, innsæið, sendingarnar, markaskynið,“ sagði hann.
„Sumir segja að líkamsbyggingin passi ekki í enska boltann, en Modric hefur sýnt að það skiptir engu. Hann er algjör skrímsli. Gefið Wirtz tíma, hann verður ótrúlegur fyrir Liverpool.“
Berbatov rifjaði einnig upp að hann hafi sjálfur þurft tíma til að fóta sig hjá Bayer Leverkusen sama félagi og Wirtz kom frá.