

People greinir frá því að Bijou Philips, fyrrverandi eiginkona leikarans, hafi lagt fram beiðni hjá dómstólum um að nafni dóttur þeirra verði breytt úr Fianna Francis Masterson í Fianna Francis Phillips.
Hjónin voru gift í 12 ár og stóð Philips þétt við bak eiginmanns síns á meðan nauðgunarmálin voru fyrir dómi. Hún sótti aftur á móti um skilnað eftir að hann var sakfelldur árið 2023.
Nauðganirnar sem hann var dæmdur fyrir áttu sér stað árin 2001 og 2003, en Masterson hefur staðfastlega haldið fram sakleysi sínu og bíður áfrýjun hans nú meðferðar.
Bijou er með fullt forræði yfir dóttur þeirra en Masterson hefur farið fram á að hún fái að heimsækja hann reglulega í fangelsið þar sem hann afplánar dóm sinn. Bijou er í dag í sambúð með viðskiptamanninum Jamie Mazur.