
Forráðamenn West Ham hafa samkvæmt fréttum ákveðið að standa með stjóranum Nuno Espirito Santo þrátt fyrir mjög slæma byrjun hans í starfi.
West Ham tapaði 2–1 fyrir Leeds á Elland Road á föstudagskvöldið og situr nú í 19. sæti ensku úrvalsdeildarinnar, fjórum stigum frá öruggu sæti. Tapið var það þriðja í röð undir stjórn Nuno, sem hefur enn ekki unnið leik með félaginu síðan hann tók við í september af Graham Potter.
Stjórn félagsins hefur þó ákveðið að sýna Portúgalanum þolinmæði og hefur ekki í hyggju að gera breytingar. Fær hann tækifæri til að snúa gengi liðsins við.
Nuno var áður látinn fara frá Nottingham Forest fyrr á tímabilinu eftir aðeins þrjá leiki og tók þá Ange Postecoglou við. Hann entist aðeins 39 daga í starfi áður en honum var sagt upp.
Því er einnig haldið fram að Nuno fái stuðning frá West Ham til að styrkja liðið í félagaskiptaglugganum í janúar.