Veitingamaðurinn Stefán Magnússon hefur verið dæmdur í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og til greiðslu 200,7 milljón króna sektar fyrir meiriháttar skattsvik.
Skattsvikin áttu sér stað í rekstri einkahlutafélaganna Steik ehf. og Gourmet ehf. Félögin, sem bæði eru gjaldþrota, voru eignarhaldsfélög þekktra og vinsælla veitingastaða, Reykjavík Meat og Sjáldand í Garðabæ. Stefán rak einnig hlutafélagið Brunch ehf. sem rak Mathús Garðabæjar, en það félag var úrskurðað gjaldþrota árið 2023. Stefán var ákærður fyrir að hafa ekki staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélaganna. Hjá öðru félaginu nam fjárhæðin tæpum 33 milljónum fyrir tímabil sem náði frá árslokum 2020 fram til ágúst 2022. Hvað hitt félagið varðar nam fjárhæðin rúmum 68 milljónum fyrir tímabil frá lokum árs 2021 fram til júlí árið 2023.
Sjá einnig: Allt í steik hjá Steik – Gjaldþrotakóngur úr veitingabransanum ákærður fyrir skattsvik
Stefán játaði sök í málinu en krafðist vægustu refsingar sem lög leyfa. Vísaði hann til þess að rekstur félaganna hafi gengið vel þar til í faraldri COVID. Því ætti að meta utanaðkomandi aðstæður honum til málsbóta. Félagin hafi verið í veitingarekstri og slík starfsemi ýmist bönnuð eða mjög takmörkuð á ákærutímabili á grundvelli fyrirmæla yfirvalda. Stefán hafi notað eigin fjármuni til að koma báðum veitingastöðum á koppinn sem hann sá fyrir að tapa ef hann missti leigusamninga.
Eftir á að hyggja hafi rekstrargrundvöllur beggja félaga verið brostinn í mars árið 2020 en Stefán var með skuldbindingar gagnvart skattinum og starfsmönnum sem hann ætlaði sér að standa við. Þeir litlu fjármunir sem hann hafði fóru í að greiða leigu og laun starfsmanna í von um að rekstraraðstæður myndu batna. Faraldurinn dróst þó á langinn og stuðningur stjórnvalda var undir væntingum. Viðspyrnan eftir faraldurinn varð svo hægari en væntingar stóðu til. Stefán reyndi að selja félögin til að gera upp skuldir en það gekk ekki eftir en hann taldi þó að þær tilraunir ættu að vera metnar honum til málsbóta.
Dómari tók undir að stæður hefðu verið fordæmalausar vegna faraldursins. Hins vegar varði ákæra vegna beggja félaga einnig tímabil eftir faraldurinn. Stefán hafi greitt starfsmönnum laun en ekki skilað inn staðgreiðslu þeirra. Félögin fóru í þrot vegna skulda við lífeyrissjóði.
Ekki taldi dómari þó rétt að miða við vægustu refsingu. Stefán hafi borið skylda til að tryggja að afdreginni staðgreiðslu launa væri skilað í samræmi við lög. Erfiðleikar í rekstri og erfið samskipti við leigusala breyti engu um þá skyldu. Honum hafi verið rétt og skylt að gefa bú félaganna upp til gjaldþrotaskipta hafi honum verið ljóst að félögin væru ógjaldfær. Ætla megi svo að styrkir stjórnvalda hafi mildað áhrif faraldursins, en Stefán hafi þó engin gögn lögð fram um fjárhæð styrkjanna eða nánari upplýsingar um afkomu félaganna á ákærutímabilinu. Fjárskortur leiði ekki til refsimildunar.
Það væri þó til refsimildunar að hann játaði sök, en á sama tíma horfði það til refsiþyngingar að um verulegar fjárhæðir væri að ræða yfir langt tímabil. Brot Stefáns væru stórfelld. Hæfileg refsing væri því 15 mánuðir skilorðsbundið til tveggja ára. Eins beri honum að greiða sekt í ríkissjóð sem nemi tvöfaldri þeirri skattfjárhæð sem hann var ákærður fyrir að standa ekki skil á – 200.700.000 kr. en komi 360 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dóms. Eins þarf Stefán að greiða þóknun verjanda síns, 1,4 milljónir.
Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjavíkur þann 9. október.