Varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, Pete Hegseth, hefur farið mikinn gegn svokallaðri woke-hugmyndafræði frá því að hann tók við embætti. Einkum hefur hann beitt sér gegn svokölluðum DEI-aðgerðum sem er ætlað að stuðla að fjölbreyttni, jafnrétti og inngildingu. En ráðherrann var ekki alltaf svona harður í andstöðu sinni við allt sem má flokka woke.
Árið 2013 skrifaði hann meistararitgerð í opinberri stjórnsýslu við Harvard-háskóla og færði þar rök fyrir að koma á fót ríkisreknum unglingaskóla í Minnesota sem væri með áherslu á vísinda- og stærðfræðikennslu. Þetta fannst honum mikilvægt þar sem margir nemendur í Minnesota væru að detta aftur úr landsmeðaltali í vísindakennslu. Með því að koma á fót sérstökum skóla væri hægt að minnka bilið aftur. Það væri mikilvægt að styðja við börn sem kæmu úr fátækt eða minnihlutahópum svo þau gætu fengið sömu tækifærin og aðrir.
„Þjóð okkar og ríki verða að stefna að jöfnum tækifærum fyrir alla, óháð kynþætti, stétt, staðsetningu eða kyni,“ skrifaði ráðherrann fyrir rúmum áratug en hefur heldur betur skipt um skoðun síðan. Í ritgerðinni lagði hann til samstarf við þingkonuna Melissu Hortmans sem hafði þá verið áberandi í menntamálum. Hortman og eiginmaður hennar voru myrt á heimili sínu í sumar. Hvorki Hegseth né Donald Trump Bandaríkjaforseti sáu tilefni til að gera mál úr því. Hortman var ein þeirra sem Hegseth tók viðtal við í ritgerð sinni.
Independent bendir á að ritgerð Hegseth sé að vekja athygli núna í ljósi sögulegs fundar sem Hegseth boðaði til í ráðuneyti sínu þar sem allir helstu embættismenn hersins voru látnir koma saman til að hlusta á eldræðu um að herinn ætlaði ekki lengur að vera fullur af feitum og skeggjuðum aumingjum eða konum sem væru bara komnar til metorða út af kyni sínu.