Maðurinn, Stephan Marcum, er 58 ára en í hrekkjavökuskreytingunum mátti meðal annars finna líkbrúður sem áttu að tákna ýmsa embættismenn í bænum Stanton þar sem hann er búsettur.
Alls var um að ræða fimm líkbrúður og var hver og ein með sína merkingu, til dæmis var ein merkt með nafninu „bæjarstjóri“, önnur með nafninu „skipulagsstjóri“ og enn önnur var merkt nafninu „héraðsdómari“.
Yfirvöld telja að uppsetningin hafi þótt ógnandi og undirtónn hennar hreinlega glæpsamlegur.
Í umfjöllun NBC News er þess getið að Marcum hafi um nokkurt skeið átt í deilum við bæjaryfirvöld þar sem hann uppfyllti ekki reglur um tengingu við vatnsveitu, fráveitu og rafmagn.
Eddie Barnes, yfirdómari í Powell-sýslu, segir við NBC News að hann hafi þekkt Marcum í yfir 35 ár og hann telji að hann sé ekki hættulegur. Honum gæti þó verið betur borgið annars staðar en á eigin heimili þar sem hreinlætisaðstæður eru óviðunandi.
Segir Barnes að íbúar í nágrenninu hafi kvartað undan því að Marcum hafi notað fötu í stað salernis og síðan tæmt hana utan dyra. „Það er hvorki gott fyrir nágrannana né hans eigin heilsu. Reglur um þetta eru til af ástæðu,“ segir hann.
Marcum átti að koma fyrir dóm á þriðjudag, en málinu var frestað þar sem dómari þurfti að segja sig frá því. Dómarinn sem um ræðir er nefnilega sá sem birtist á einni af skreytingunum umdeildu og er hann því vanhæfur til að fjalla um málið.