Fyrir rúmlega ári síðan var Katla alvarlega að íhuga að kasta inn hvíta handklæðinu eftir að hafa verið í eigin rekstri í sautján ár. Það voru erfiðir tímar, bróðir hennar var að berjast við illvígt krabbamein og hún var ólétt af þriðja barninu á stuttum tíma. Reksturinn var líka í lægð en það hefur verið krefjandi undanfarin ár að halda úti framleiðslu á Íslandi. En Katla vildi ekki gefast strax upp og þakkar hún Hrólfi bróður sínum heitnum fyrir að hafa hvatt hana áfram og minnt hana á hvað sé mikilvægt í þessu lífi.
Hér að neðan má lesa textabrot upp úr þættinum en þú getur hlustað á þáttinn í heild sinni á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Katla hefur, eins og áður segir, staðið í eigin rekstri í sautján ár. Hún stofnaði fatamerkið Volcano Design árið 2008, sem lifir enn og er til sölu í verslun Kötlu, Systur og makar, í Síðumúla og samnefndri netverslun. Verslunina opnaði hún með systur sinnu, Maríu Kristu, en árið 2019 tók hún ein við rekstrinum.
Það er óhætt að segja að árið 2019 hafi verið stórt ár. Ekki nóg með að kaupa systur sína út úr fyrirtækinu þá kynntist hún eiginmanni sínum, Hauki Unnari, sama ár og eignuðust þau þrjá drengi á fimm árum. Fyrir á Haukur tvö börn, svo það er mikið stuð á heimilinu.
„Hann hefur ekki fengið sér sæti síðan við hittumst, elsku maðurinn minn,“ segir Katla hlæjandi.
Smelltu hér ef þú sérð ekki færsluna hér að neðan eða prófaðu að endurhlaða síðuna.
View this post on Instagram
Eftir fyrsta stefnumótið var ekki aftur snúið. Þau voru strax mjög hrifin og gerðist allt mjög hratt. „Stuttu seinna var ég orðin ólétt, en við því miður misstum við en ég varð strax aftur ólétt. Ég er nokkuð viss um að það sé sá sem ég missti. Það er hann Úlfur minn, kom þarna aðeins seinna. Ég heyrði það meira að segja frá miðli. Það var einhver tilfinning sem kom með honum,“ segir Katla.
„Svo sautján mánuðum eftir það kom hann Össur og svo er sá yngsti árs gamall.“
Katla opnar sig um hræðsluna að verða ólétt aftur eftir missi. Hún hafði misst tvisvar þegar hún varð ólétt af elsta drengnum.
„Ég hafði ég ekki mjög mikla trú á að þetta gengi. Ég man eftir því að ég í hvert einasta skipti sem ég fór að pissa og tékkaði í pappírinn,“ segir hún. „Og það var bara þannig eiginlega allan tímann.“
„Ég leyfði mér kannski ekki alveg að gleðjast fyrr en þetta var raunverulegt, þegar ég var komin með hann í fangið. Ég eiginlega leyfði mér ekki alveg að fara þangað. Auðvitað var ég spennt og glöð og kát og allt þetta, allar þessar tilfinningar, en undir niðri var mikil, mikil hræðsla.“
Katla og Haukur stukku beint í djúpu laugina saman. „Við fengum ekki langan tíma til að vera í einhverju deiti, höfum ekki verið mikið þar. Hann var eiginlega fenginn strax inn í vinnu hjá mér. Ég var að taka við rekstrinum, ákvað að loka saumastofunni minni og sameina hana í Síðumúla 21. Þannig að ég er með saumastofu og verslunina á sama stað í staðinn fyrir að vera með tvö húsnæði. Hann mátti gjöra svo vel að flytja þetta allt saman af því að ég var ólétt. Hann var bara settur á fullt í vinnu með pabba og bróður mínum og þeir máttu bara gjöra svo vel að kynnast þarna fyrstu vikurnar,“ segir Katla kímin.
Þegar Katla var ólétt af yngsta syninum greindist bróðir hennar með illvígt og krefjandi krabbamein. Á sama tíma var hún að loka veislusal sem hún hafði rekið í Síðumúlanum í áratug og var hún og fjölskyldan að flytja í nýtt húsnæði.
„Þegar að maður er að ganga í gegnum þetta allt saman og meðgöngu á sama tíma, og þá þriðju á mjög stuttum tíma, þá er álagið bæði á kroppinn og andlegu líðanina ansi mikið. Og þetta var frekar erfið meðganga,“ segir Katla.
„Andlega hliðin fór svona pínu á hliðina. Þetta var mjög erfitt, aðallega að díla við þessi veikindi ofan í allt annað, og hafa áhyggjur af þessu öllu saman, ekki bara bróður mínum. Þetta snertir okkur öll, alla fjölskylduna. Við vorum öll að fara úr límingunum,“ segir Katla og bætir við að hún hafi íhugað að hætta í rekstri.
„Ég var eiginlega búin að ákveða það fyrir rúmlega ári síðan. Íslensk framleiðsla út af fyrir sig er rándýr. Hún er bara rándýr og þessi rekstur er rosalega mikill og krefjandi og ég er búin að halda þessu úti í sautján ár og þetta er alveg hrikalega skemmtilegt. En þetta er eins og allur annar rekstur, bara svona öldugangur sem fer bara upp og niður og stundum er maður inn og töff og hipp og kúl og nær að selja og gengur vel. Og stundum eru erfiðir tímar og rekstur snýst um það að komast í gegnum erfiðu tímana,“ segir Katla.
„En vandamálið við þessa framleiðslu sem að ég er með, það er ástæða fyrir því að íslenskur fataiðnaður er nánast útdauður og það er ekki mikið að opna í viðbót af íslenskri framleiðslu. Íslenskar saumastofur eru á algjöru undanhaldi, ég held ég sé með eina af þeim síðustu. Það er bara staðreynd. Og er búið að vera þannig síðustu fimmtán árin. Þær eru bara alltaf færri og færri. Það er meira að segja erfitt að fá þjónustu við vélarnar okkar. Við erum bara komin þangað, fáum ekki viðgerðarmenn. Þetta er bara orðið mjög flókið og þetta er bara deyjandi iðn. Þannig að þegar maður er búinn að vera í harki í ansi mörg ár, svo er maður allt í einu kominn með börn og fimm í þokkabót, þá er maður farinn að hugsa þetta aðeins öðruvísi: Er þetta virkilega þess virði, hvar er tímanum mínum best varið?“
Eftir mikla umhugsun ákvað Katla að gefa rekstrinum eitt tækifæri í viðbót. „Við erum að fara í gegnum ansi stórar breytingar núna og ætlum að flytja framleiðsluna erlendis,“ segir Katla.
Hún segir ákvörðunina ekki hafa verið auðvelda en nauðsynlega en hún þakkar Hrólfi bróður sínum heitnum fyrir að hafa hvatt hana áfram. „Það var reality check. Hvers virði er þetta líf? Hvers virði er þessi tími? Hann var fjörutíu og sex ára, allt of ungur. Og það var eiginlega svona sjokkið sem bara svona sló mann svolítið utanundir,“ segir Katla.
Katla ræðir þetta nánar í þættinum sem má hlusta á hér.
Fylgdu Kötlu á Instagram @systurogmakar.