fbpx
Laugardagur 27.september 2025
Fókus

„Með lestri fáum við að setja okkur í spor annarra, upplifa sögur þeirra, aðstæður og tilfinningar“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 27. september 2025 11:00

Bergrún Íris ásamt Eyju og Rögnvaldi, persónum Langelstur bókanna. Mynd: Rakel Ósk Sigurðardóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Bergrún Íris Sævarsdóttir, myndhöfundur og barnabókahöfundur, gaf út sína fyrstu bók Vinur minn, vindurinn haustið 2014 og var bókin tilnefnd til Fjöruverðlaunanna og Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Síðan þá hefur Bergrún Íris skrifað fjölda barnabóka og myndlýst sínar eigin bækur, sem og annarra höfunda. Hún hefur einnig myndlýst námsefni, haldið einkasýningar og tekið þátt í samsýningum. 

Bergrún Íris útskrifaðist með BA gráðu í listfræði úr Háskóla Íslands 2009, lauk diplómanámi í teikningu frá Myndlistaskólanum í Reykjavík vorið 2012 og sótti sumarskóla í barnabókagerð í Anglia Rushkin, Cambridge School of Art.

Bækur Bergrúnar Írisar hafa verið tilnefndar til fjölda verðlauna. Hún hlaut Fjöruverðlaunin og Barnabókaverðlaun Guðrúnar Helgadóttur fyrir Kennarinn sem hvarf, og Íslensku bókmenntaverðlaunin og Vest Norrænu barnabókaverðlaunin fyrir Langelstur að eilífu. Hún var bæjarlistamaður Hafnarfjarðar árið 2020.

Bergrún Íris býr ásamt fjölskyldu sinni í Hafnarfirði. 

Hún er lesandi DV.

Hvaða bók/bækur ertu að lesa núna?

Á náttborðinu er nýjasta bók Matt Haig, Óhugsandi líf, en hún er heillandi saga sem ljúft er að lesa fyrir svefninn.

Hvaða bók/bækur laukstu við síðast og hvernig fannst þér hún/þær?

Ég hef verið að háma í mig fjölda bóka eftir Freidu McFadden í hljóðbókarformi sem eru hver annarri klikkaðri. Hef mjög gaman af klækjabrögðum Freidu en bækurnar eru vissulega jafn misjafnar og þær eru margar. Sú síðasta sem ég lauk við var Want to Know a Secret? Hún var fínasta léttmeti, dálítið eins og Desperate Housewives í bókaformi.


Hefurðu nýlega gefist upp á að lesa einhverja bók eða hefurðu lesið einhverja bók nýlega sem stóðst ekki væntingar?

Já, gefst reglulega upp á lestri ýmissa bóka en veit að það snýst um smekk frekar en gæði svo ég ætla ekki að nafngreina neina höfunda hér.

Hvar finnst þér best að lesa og er einhver tími dags betri en annar?

Ég les mikið með eyrunum þegar ég er í ræktinni, úti að ganga og á fjöllum. Heima finnst mér best að lesa undir sæng þar til augnlokin þyngjast. Við frúin lesum líka stundum fyrir hvor aðra, það er mjög notalegt, og þá skiptir staðurinn engu máli, svo lengi sem hún er við hliðina á mér.

Manstu eftir hvaða bók var lesin fyrst fyrir þig sem barn og/eða sem þú last sjálf sem barn?

Já það var mikið lesið fyrir mig í æsku og sjálf lá ég í bókum heilu dagana. Bækurnar sem ég man eru of margar til þess að þylja þær upp, en þær sem ég hef lesið aftur og aftur eru til dæmis Bróðir minn Ljónshjarta, Galdrastafir og græn augu og Vestur í bláinn. Svo eru allar bækur Guðrúnar Helgadóttir eftirminnilegar, hver á sinn hátt.

Er einhver bók/bækur sem þú getur ekki beðið eftir að lesa?

Svo margar! Ég er virkilega spennt fyrir komandi jólabókaflóði! Birtingur og símabannið mikla eftir Gunna Helga og Elías Rúna lítur mjög vel út og Skólastjórinn eftir Ævar Þór og Elínu Elísabetu held ég að sé geggjuð bók! Svo skilst mér að það sé von á unglingabók eftir Arndísi Þórarins og þá má aldeilis láta sig hlakka til! Ég er líklega alltaf spenntust fyrir barna- og unglingabókunum, því við eigum svo ótrúlega marga flotta höfunda í þeirri deild. Helen Hafgnýr Cova og Fanny Sissiko eru líka að gefa út gullfallega myndabók sem heitir Við. Ég fékk að glugga í prentskjölin um daginn og hún verður algjör gullmoli!

Áttu þér uppáhaldsbók/bækur sem þú jafnvel lest aftur og aftur?

Ég get alltaf gripið í Karítas án titils, eftir Kristínu Marju Baldursdóttur, hún bregst aldrei. Ljóðabækurnar hans Antons Helga fá mig alltaf til þess að brosa og hræra í sálinni á mér. Svo er ómögulegt að nefna ekki Home Body eftir Rupi Kaur. Sú bók breytti lífi mínu til hins betra.

Áttu þér uppáhalds höfund/a?

Það eru svo margir í uppáhaldi en Elísabetarnar mínar tvær eru ofarlega á blaði þessa dagana. Elísabet Jökuls er skáld af guðs náð sem hleypir orðunum óritskoðuðum beint úr sálinni. Svo elska ég allt sem Elísabet Thoroddsen skrifar og get ekki beðið eftir hennar næstu bók.

Nýjasta bók Elísabetar

Nýjasta bók Elísabetar, sem Bergrún Íris myndlýsti

Hvaðabók/bækur hafa haft mest áhrif á þig og hvers vegna?

Mínar eigin bækur. Þetta er kannski dálítið sérstakt svar, en bækurnar sem ég skrifa eru gjarnan mjög persónulegar og skrifin eiga það til að verða úrvinnsla á eigin æsku, áföllum, minningum og draumum. Þegar ég sest niður til þess að skrifa flæða sögurnar gjarnan í gegnum mig, eins og úr annarri vídd og oft líður mér eins og ég sé að upplifa þær eins og lesandi á meðan ég skrifa. Þegar ég hef lokið við skrifin og næ fjarlægð á verkið birtist mér einhver sannleikur um sjálfa mig og heiminn. Eyja og Rögnvaldur úr Langelstur bókunum eru mér jafn raunveruleg og mín eigin fjölskylda og þegar Rögnvaldur dó upplifði ég raunverulega sorg.

Hvaða bók/bækur ættu allir að lesa (bók/bækur sem þú mælir alltaf með)?

Ég held að heimurinn væri betri staður ef allir myndu lesa Guðrúnu Helga og Astrid Lindgren. Almennt trúi ég því mjög heitt og innilega að lestur með börnum þroski með þeim samkennd og af henni er aldrei nóg. Með lestri fáum við að setja okkur í spor annarra, upplifa sögur þeirra, aðstæður og tilfinningar. Ég myndi því ekki mæla bara með einhverri einni bók, enda erum við ólík með ólíkan smekk, heldur að fólk lesi sem mest og sem oftast. Sannleikurinn býr gjarnan í skáldskapnum.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Bandarískur ferðamaður fékk menningarsjokk á Íslandi – „Ég geng inn og sé þá fullt af nöktum konum”

Bandarískur ferðamaður fékk menningarsjokk á Íslandi – „Ég geng inn og sé þá fullt af nöktum konum”
Fókus
Fyrir 2 dögum

Carmen Electra 53 ára í djarfri myndatöku

Carmen Electra 53 ára í djarfri myndatöku
Fókus
Fyrir 3 dögum

Svona heldur Linda Pé sér í formi

Svona heldur Linda Pé sér í formi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Tárvotur Jimmy Kimmel snýr aftur – Sjáðu myndbandið

Tárvotur Jimmy Kimmel snýr aftur – Sjáðu myndbandið
Fókus
Fyrir 4 dögum

Myndband: Þórdís Elva og Jann fagna fimm mánuðum saman

Myndband: Þórdís Elva og Jann fagna fimm mánuðum saman
Fókus
Fyrir 4 dögum

Helgi var 42 ára þegar hann áttaði sig á því að einkvæni væri ekki fyrir hann

Helgi var 42 ára þegar hann áttaði sig á því að einkvæni væri ekki fyrir hann