Jóhann Skúli Jónsson, hlaðvarpsstjarna með meiru, var gestur Helga Fannars Sigurðssonar í Íþróttavikunni á 433.is á föstudag. Þar var farið vel yfir lokasprettinn í Bestu deild karla.
Nú er 22 leikjum lokið í Bestu deildinni. Fyrir nokkrum árum hefði mótinu þá verið lokið en nú er deildinni skipt upp í efri og neðri hluta, þar sem öll lið leika fimm leiki til viðbótar.
Jóhann er hrifinn af þessu fyrirkomulagi og botnar lítið í gagnrýni sem er á þann veg að það skorti spennu í leiki fyrir ákveðin lið.
„Ég er hrifinn af þessu fyrirkomulagi. Ég hef aldrei skilið þessa umræðu um að síðustu leikirnir séu tilgangslausir fyrir ákveðin lið. Það eru allar deildarkeppnir þannig. Það er miðjumoð alls staðar,“ sagði hann.
„Það langmikilvægasta er að deildin sé ekki 18 eða 22 leikir. Nú ertu kominn með 27 leikja deild sem er algjör lágmark ef þú ætlar að halda einhverju úti. Bæði upp á að leikmenn séu í leikformi, sem söluvörur og svo er gaman að hafa fótbolta frá apríl og nánast inn í nóvember.“
Þátturinn í heild er í spilaranum.