fbpx
Fimmtudagur 18.desember 2025
Fréttir

Miðflokkurinn vill leita að olíu og gasi – Beri það árangur sé hægt að útrýma verðtryggingunni

Ritstjórn DV
Föstudaginn 12. september 2025 19:45

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins. Mynd: KSJ/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þingflokkur Miðflokksins, að Snorra Mássyni og Sigríði Andersen undanskildum, hefur lagt fram á Alþingi tillögu að þingsályktun en fyrsti flutningsmaður er formaðurinn Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Gengur hún út á að hafnar verði að nýju markvissar rannsóknir á olíu- og/eða gaslindum á landgrunni Íslands og ríkisolíufélag verði sett á laggirnar til þess að tryggja að þjóðin öll njóti góðs af því ef olía og gas finnast í íslenskri lögsögu. Segir í greinargerð með tillögunni að áhrif af því að slík leit beri árangur verði mikil á efnahagslíf landsins og meðal annars verði hægt að leggja af verðtrygginguna.

Í greinargerðinni segir:

„Olía og gas hafa ekki notið sannmælis í loftslagspredikunum heimsendaspámanna, en tilfellið er aþessir orkugjafar hafa komið í stað brennslu á viði, kolum, taði og öðru og haft þannig margvísleg jákvæð áhrif.“

Miðflokksmenn segja mikilvægt að huga að olíu og gasleit vegna stöðu heimsmála og að notkun þessara auðlinda muni aukast á næstu árum. Olía mengi minna en kol og Norðmenn séu að auka olíu- og gasvinnslu sína. Parísarsáttmálinn, sem Ísland er aðili að, hamli þessu ekki. Þvert á móti sé þar hvatt til þess að slíkir skaðminni orkugjafar séu unnir fremur en þau kolefni sem mengi mest.

Fyrri rannsóknir

Vitnað er í greinargerðinni í fyrri rannsóknir og leit að olíu og gasi í íslenskri lögsögu og þar segir meðal annars:

„Terje Hagevang, helsti sérfræðingur Norðmanna um Jan Mayen hrygginn, hefur sagt að þar sé að finna álíka verðmæti í olíu og gasi og finnast í Noregshafi. Samkvæmt rannsóknum Sagex olíufélagsins frá 2006 er megnið af þeim svæðum sem líklegust eru til að geyma olíu- og gaslindir innan íslenskrar lögsögu.“

Einkum hefur verið vísað til olíu- og gasleitar á hinu svokallaða Drekasvæði, norðaustast í lögsögu Íslands en Miðflokksmenn segja vísbendingar um að olíu- og gas geti verið að finna nær landi og vísa þá til Skjálfanda og Tjörnesbrotabeltsins undan Norðurlandi, sem nái um 150 kílómetra frá Skaga í vestri til Öxarfjarðar í austri og frá ströndum Norðurlands um 50 kílómetra leið allt að Kolbeinseyjarhrygg.

Efnahagurinn

Í greinargerðinni segir að mikilvægt sé að Orkustofnun, sem reyndar hefur sameinast Umhverfisstofnun, þurfi að fá mikinn stuðning vegna olíuleitar og stofnun ríkisolíufélags sé mikilvæg í því samhengi, meðal annars til að laða að fjárfesta og til að byggja upp þekkingu. Félagið yrði líka liður í því að að tryggja að öll þjóðin njóti góðs af því ef olía og gas finnist í lögsögu Ísland. Segir í greinargerðinni að beri leitin þann árangur að olíu og gaslindir finnist sem hægt sé að vinna úr myndi það strax hafa áhrif á íslenskan efnahag og raunar gerbreyta honum:

„Vaxtakjör ríkisins myndu batna til muna og vaxtakostnaður lækka. Hægt yrði að halda úti stöðugum og sterkum gjaldmiðli án verðtryggingar og bjóða landsmönnum hagkvæm óverðtryggð íbúðalán, svo að dæmi séu tekin.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar

Mannslát á Kársnesi: Gæsluvarðhald framlengt til 13. janúar
Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”

Björn Leví lætur gamlan kollega heyra það – „Það væri fínt að losna við hann úr þinginu”
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur

Hjón réðust til atlögu við annan af hryðjuverkamönnum á Bondi-strönd en lifðu það ekki af – Hyllt sem hetjur
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Halldór Blöndal er látinn

Halldór Blöndal er látinn
Fréttir
Í gær

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“

Manuela Ósk svarar Helenu – „Í flestum tilfellum farið með hreinar rangfærslur“
Fréttir
Í gær

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu

Hetjan í Ástralíu rýfur þögnina – Meiðslin miklu alvarlegri en talið var í fyrstu
Fréttir
Í gær

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“

Safnað fyrir Gunnar Inga sem á langt bataferli framundan – „Fyrir algjört kraftaverk var lífi hans bjargað“
Fréttir
Í gær

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast

Verðkönnun á jólakjöti – Sjáðu hvar það er ódýrast og hvar það er dýrast