Ábúendur og eigendur á bænum Varmadal í Rangárþyngi ytra telja að sveitarfélagið hafi ólöglega urðað rusl og spilliefni á jörðinni í áratugi. Krefjast þeir að sveitarfélagið gangist við ábyrgð sinni og bæti þann skaða sem það hefur valdið.
Þetta kemur fram í bréfi sem ábúendur í Varmadal sendu sveitarstjórn og tekið var fyrir á fundi í gær, 10. september. Í bréfinu kemur fram að ábúendur hafi ítrekað beðið eftir lausn mála án árangurs.
Kemur fram að í áratugi, það er allt til ársins 2003 hafi sveitarfélagið urðað mikið magn af rusli og úrgangi við Torfærugil í landi Varmadals. Það er allt almennt sorp eins og tíðkaðist að urða á þeim tíma. Meðal annars heimilistæki, heimilissorp, gler, bílhræ, bílgeyma og önnur spilliefni.
„Sorpinu var sturtað niður í gil sem liggur ekki langt frá Hróarslæk og getur haft mengandi áhrif á lífríki lands og lækjar,“ segir í bréfinu. „Höfum við farið fram á að þetta rusl verði fjarlægt enda var þessi urðun gerð í algjöru leyfisleysi. Í meðfylgjandi gögnum má sjá fyrri beiðni um fjarlægingu á ruslinu.“
Segja ábúendurnir að það fylgi því mikil ábyrgð að eiga land sem hafi slíkan úrgang í jörðu því að þarna séu geymar og önnur spilliefni sem síist út í jarðveginn, eigi greiða leið út í Varmadalslækinn og mögulega í grunnvatn.
„Svæðið sem ruslinu var sturtað á er stórt og djúpt en á sínum tíma mokaði sveitarfélagið yfir ruslið í gilinu. Nú er ruslið farið að koma upp úr jörðinni svo hætta stafar af t.d. gleri sem stingst upp úr jörðinni,“ segir í bréfinu og nefnt að miklu magni glers úr glerverksmiðjunni Samverki hafi verið sturtað þarna eftir að það brotnaði í stóra jarðskjálftanum árið 2000 og ekki rætt við landeigendur um það.
Ítrekað er að ekkert leyfi sé fyrir urðuninni. Því hafi verið velt upp hvort að Landgræðsla ríkisins hafi á sínum tíma veitt leyfi en landið sé ekki í eigu Landgræðslunnar heldur Varmadals.
„Þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir okkar um að ekki væri haldið áfram að urða rusl þarna, eftir að við keyptum Varmadal árið 1991, var því haldið áfram til ársins 2003,“ segir í bréfinu. „Þessi ruslahaugur er eins og áður segir í algjörri óþökk eigenda og af honum stafar mikil hætta fyrir þá sem um svæðið farið. Ruslahaugurinn kemur í veg fyrir að landið sé nýtt bæði af skepnum og mönnum en eins og menn vita er mikil sumarhúsabyggð upp með Hróarslæknum. Ekki er unnt að skipuleggja slíka byggð né aðra nýtingu á þessu landi vegna hauganna og hættu á mengun frá þeim.“
Segja ábúendur að verðgildi landsins hafi rýrnað gríðarlega vegna þessa. Sveitarfélagið hafi ætlað að vakta og meta mengunina árið 2022 en ekkert hafi frést af því.
Þetta er ekki eina sorpvandamálið sem Varmadalsfólk á við að etja. En greint er frá því að Sorpstöð Rangárvallasýslu liggi að landi Varmadals austanverðu. Á þeirri sorpstöð hafi sorp verið urðað utan við stöðina og inni á landi Varmadals og einnig hefur verið mikið um sorpfok inn á jörðina.
„Í ljósi þess sem að framan greinir teljum við að það sé ekki ósanngjörn krafa að sveitarfélagið bæti okkur þann skaða sem hlotist hefur vegna sorpmála sveitarfélagsins. Helst viljum við að sveitarfélagið fjarlægi allt sorp sem það hefur komið fyrir á jörð okkar í leyfisleysi,“ segir í bréfinu og að ef ekki verði brugðist við þessu séu ábúendurnir knúnir til að leita til lögmanns til að leita réttar síns með formlegum hætti.
Eins og áður segir var málið tekið fyrir á fundi sveitarstjórnar og oddvitum og sveitarstjóra falið að funda með Varmadalsfólki vegna málsins.