Fyrrverandi yfirmaður alþjóðlegrar rannsóknardeildar á sviði íþróttaglæpa heldur því fram að leikmenn í ensku úrvalsdeildinni séu viðriðnir hagræðingu úrslita og að sönnunargögn hafi verið látin liggja á milli hluta.
Fredrik Gardare, sem leiddi sérsveit sænsku lögreglunnar gegn skipulagðri glæpastarfsemi í íþróttum, segir að mikilvæg sönnunargögn sem fundust við húsleit í ólöglegu spilavíti hafi verið hunsuð. Hann fullyrðir að símaupplýsingar sem þar komu í ljós sýni tengsl leikmanna við leikjabraskara.
Enska knattspyrnusambandið hefur ekki enn fengið rannsóknargögnin frá sænsku lögreglunni, en samkvæmt heimildum Daily Mail Sport hefur enska knattspyrnusambandið áhuga á að fara yfir málið ef gögnin verða afhent.
Gardare hefur áður leitt rannsókn sem afhjúpaði að fyrrverandi miðjumaður Manchester City, Dickson Etuhu, reyndi að múta leikmönnum í Svíþjóð. Etuhu var fundinn sekur og settur í fimm ára bann frá fótbolta í landinu.
Í sinni síðustu rannsókn, sem fór fram árið 2021, lét Gardare teymi sitt gera áhlaup á ólöglegt spilavíti í Stokkhólmi. Fjöldi síma var gerður upptækur, og í einum þeirra fundust umfangsmikil skilaboð á forritinu Telegram þar sem rætt var um uppgjör leikja meðal annars í Þjóðadeild UEFA. Gardare segir að margir leikmenn í ensku úrvalsdeildinni hafi komið þar við sögu.
Sænsk lögregluyfirvöld ákváðu þó að hætta rannsókninni og engar ákærur voru gefnar út. Gardare gagnrýnir ákvörðunina harðlega og vill fá svör um hvers vegna rannsóknin hafi verið lögð niður, sérstaklega þar sem símarnir og sönnunargögnin eru enn í vörslu lögreglu.
„Þetta var forgangsmál fyrir mig og ég setti allt teymið mitt á það,“ sagði Gardare í samtali við Daily Mail Sport.
„En samt sagði lögreglan í desember þetta ár: ‘Við erum búin með þetta.’ Við sendum upplýsingarnar beint til sænska knattspyrnusambandsins og sögðum: ‘Þetta er alvarlegt.’ Ég vona að þeir hafi haft samband við knattspyrnusambandið í Englandi.“
Hann bætti við að þetta væri vandamál sem snerti ekki aðeins sænskan fótbolta heldur einnig alþjóðlegan. „Það sást meira en einn leikmaður úr úrvalsdeildinni í símanum. Það var verið að veðja á gult spjald, hornspyrnur og fleiri þætti í leikjum.“
Símarnir eru enn hjá sænsku ríkislögreglunni.