Helen Ólafsdóttir, öryggis- og þróunarsérfræðingur, segir að utanríkisráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þurfi að skýra ummæli sín í viðtali við The Econmist þar sem hún segist styðja stofnun leyniþjónustu á Íslandi. Vísir fjallaði um þetta viðtal. Þar kemur fram að Ísland hafi enga leyniþjónustu en að ráðherra styðji stofnun leyniþjónustu. „Við þurfum að gera meira,“ segir Þorgerður um varnarmál Íslands.
Helen segir í aðsendri grein á Vísi að við þurfum að afla betri greiningargetu en þurfum síður á aukinni leynilegri starfsemi að halda:
„Í stað þess að tala um „leyni“ starfsemi þurfum við að ræða um greiningargetu, upplýsingasöfnun og áhættumat en allt innan ramma sem tryggir aðkomu Alþingis, virka eftirlitsaðila og lagaramma sem verndar réttindi borgaranna.
Ef það er rétt skilið að hugmyndin sé að slíkur aðili yrði staðsettur undir utanríkisráðuneytið, verðum við að fá skýringar: Er verið að tala um að stíga skref í átt að stofnun erlends njósnaapparats? Er þá verið að íhuga að stjórnsýsla Íslands fari að starfrækja leynilegar aðgerðir erlendis? Hver eru þá „leyndarmálin“ sem á að sækjast eftir?“
Helen segir að Ísland þurfi aukna færni til að meta ógnir og styðja við ákvarðanatöku með vandaðri upplýsingavinnslu. Slík greining eigi hins vegar að gerast með aðkomu Alþingis og innan virks lagaramma, en ekki í leyni og án opinnar umræðu.
Hún segir að ekki sé þörf á erlendri leyniþjónustu á Íslandi heldur innlendri greininardeild sem starfar ekki í leynum:
„Það sem vantar miklu frekar er fagleg innlend greiningardeild sem vinnur náið með lögreglu, með áherslu á netógnir, skipulagða glæpastarfsemi og vaxandi öfgaöfl. Við verðum að horfast í augu við að samfélagið hefur tekið miklum breytingum síðustu tvo áratugi. Efnahagslegt misrétti, félagsleg útilokun og jaðarsetning fólks getur orðið undanfari öfgahreyfinga og við sjáum slíkt nú þegar gerast. Ísland hefur lítið sem ekkert gert til að greina þessi vandamál eða móta stefnu gegn þeim.“
Grein Helenar má lesa hér.