Rithöfundurinn Sverrir Norland segir að sér sé það ekki að skapi að ungir og óþroskaðir menn í forréttindastöðu geti kollvarpað heimsmyndinni á augabragði með gervigreind. Menn sem tali með kulda um annað fólk og hiki ekki við að þurrka út atvinnu þess.
„Það er oft mjög skrítið að lesa fréttir af tæknitrúuðum karlmönnum þessa dagana,“ segir Sverrir í pistli á samfélagsmiðlum í dag sem beint er að þeim sem hanna gervigreindina.
„Einn er sannfærður um að gervigreind sé að fara að gera mannkynið „úrelt“ og því verði eina markmið okkar í framtíðinni að framlengja mannsævina eins og kostur er, helst „til eilífðarnóns“, og þar með „útrýma dauðanum“,“ segir Sverrir. „Þessi náungi selur til dæmis flöskur af frískandi smyrsli sem er að sögn hans konar „æskuelixír“. Sjálfur kveðst hann vera með líkama tánings, en hann er 46 ára gamall. Framtíðarsýn þessa manns er sem sagt að mannkynið lifi að eilífu í heimi þar sem mannkynið er úrelt. Það er svo hressandi mótsögn að ég eiginlega fíla hugmyndina. Mjög tær og falleg skilgreining á helvíti.“
Þá beinir hann orðum sínum gegn „strákunum knáu“ á bak við fyrirtækið Mechanize. En það er gervigreindarfyrirtæki sem er staðsett í San Francisco.
„Þessir strákar, sem allir eru innan við þrítugt (held ég), eru í óðaönn að hanna gervigreindarlausnir sem taka brátt yfir ÖLL skrifstofustörf og annað dundur sem fram fer á tölvu,“ segir Sverrir. „Þeir tala raunar eins og það sé þeim bókstaflega lífsspursmál að tortíma störfum fólks. Þegar þeir eru inntir eftir því hvort það valdi þeim ekki áhyggjum að milljónir manna missi störf sín (ef þetta gengur eftir) svara þeir með afdráttarlausu nei-i, því að „hagur samfélagsins í heild“ verði svo mikill. Eins og samfélagið sé ekki bara samsafn ótal einstaklinga heldur frekar einhvers konar forrit. Og manneskjurnar bara eitthvað sem leysa má af hólmi ef það bætir hagkvæmni eða heildarútkomu.“
Sverrir segir að í báðum tilvikum einkennist talsmáti hinna ungu manna af kulda í garð annars fólks. Það er að annað fólk sé ekki beint manneskjur heldur óskilgreind hreyfing í þoku, skrúfur í gangverkinu.
„En svo fór ég að hugsa: Ungu gaurarnir á bak við Mechanize hafa pottþétt eytt langstærstum hluta lífs síns við tölvuskjá og haft mikil samskipti gegnum tölvur (jafnvel meira en augliti til auglitis), og þar með finnst þeim auðvitað rökrétt að æ fleiri angar samfélagsins stýrist af tölvum og tækni,“ segir Sverrir. „Þeir þekkja ekkert annað. Þetta er þessi undarlega mótsögn sem er innbyggð í þessar stóru breytingar: Örfáir tæknimiðaðir (og félagsfælnir?) einstaklingar endurmóta hvernig við eigum samskipti og byggjum upp samfélagið án mikillar umþenkjunar um stóra andlegu áhrifin á heimsbyggðina.“
Sverrir segist styðja það að við framlengjum lífið og að gervigreind sé notað til að gera alls konar hluti sem ekki var hægt að gera áður. Hins vegar séu þessar „uppskrúfuðu heimsmyndir“ þar sem öllu sé kollvarpað honum ekki að skapi.
„Það sem helst einkennir mannkynið er menning eða „kúltur“, og að kúltívera eitthvað þýðir að hlúa að einhverju yfir langan tíma. Að ungt fólk, sem oftast er í forréttindastöðu og sömuleiðis með takmarkaða lífsreynslu í samræmi við aldur sinn, sé að öðlast svona mikil völd – og hafi ekki andlegan þroska, að því er virðist, til að meta áhrif mögulegra breytinga – er ekki endilega neitt frábært,“ segir hann að lokum.