fbpx
Laugardagur 24.maí 2025
Pressan

Trump hellti sér yfir forseta Suður-Afríku en sagði hann satt? – Meint sönnunargögn standast ekki skoðun

Pressan
Föstudaginn 23. maí 2025 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Donald Trump Bandaríkjaforseti átti ævintýralegan fund með Cyril Ramaphosa, forseta Suður-Afríku í vikunni. Ef menn bjuggust við vinalegu samtali tveggja forseta skjátlaðist þeim hraplega. Trump hafði undirbúið sig vel og ætlaði sér greinilega að ná neyðarlegu höggi á Ramaphosa. Hins vegar fór Trump ekki rétt með staðreyndir, sem væri svo sem ekki í fyrsta sinn. Hann hélt því blákalt fram að í Suður-Afríku eigi sér nú stað þjóðarmorð gegn hvítu fólki en til að rökstyðja mál sitt tefldi forsetinn fram gögnum sem standast ekki skoðun.

BBC og Reuters hafa nú farið yfir samtal forsetanna tveggja með tilliti til staðreynda.

Trump sýndi þarna myndbönd þar sem mátti sjá suðurafríska stjórnmálamanninn, sem situr í stjórnarandstöðu, kyrja ákall um ofbeldi gegn hvítum bændum. Myndbandið sýndi einnig röð af hvítum krossum, gífurlega mörgum, sem Trump sagði að táknuðu grafreiti hvítra bænda sem hefðu verið myrtir. Eins sýndi hann Ramaphosa útprentaðar greinar um ofbeldi gegn hvítum minnihluta Suður-Afríku.

Krossarnir

Þessir hvítu krossar eru vissulega minnisvarði um fórnarlömb morða. Hins vegar eru þetta ekki grafreitir fórnarlambanna heldur er um minnisvarða að ræða, sem var komið upp til að mótmæla morði hvítra bóndahjóna, Glen og Vidu Rafferty sem voru skotin til bana á landi sínu árið 2020. Gjörningurinn var tímabundinn og hafa krossarnir nú verið fjarlægðir.

Þjóðarmorð

Samsæriskenningar um þjóðarmorð gegn hvítum í Suður-Afríku fóru á greik fljótlega eftir að aðskilnaðarstefnan var afnumin þar í landi árið 1994. Þessi kenning hefur gengið á milli fjarhægrimanna allar götur síðan.

Trump sagði á fundinum: „Margir hafa áhyggjur vegna Suður-Afríku. Þar eru margir sem upplifa ofsóknir og eru nú að leita til Bandaríkjanna, við tökum við fólki hvaðeina af ef við sjáum að það séu ofsóknir eða þjóðarmorð í gangi.“

Raunveruleikinn er sá að Suður-Afríka er með hæstu morðtíðni heimsins. Bara síðasta árið áttu rúmlega 26 þúsund morð sér stað. Af þessum gífurlega fjölda voru 44 fórnarlömb úr landbúnaði og þar af voru 8 bændur. Ekki liggja nákvæm gögn fyrir um kynþátt þeirra látnu en byggt á fréttum, færslum á samfélagsmiðlum og frásögnum aðstandenda voru 23 hvítir einstaklingar myrtir á síðasta ári í árásum sem áttu sér stað á bóndabæjum, og 9 svartir einstaklingar. Á þessu ári hafa þrír hvítir verið myrtir í árásum á bóndabæi og fjórir svartir.

1.363 hvítir bændur hafa verið myrtir frá árinu 1990, að meðaltali 40 á ári. Þetta hljómar eins og há tala en í ljósi þess hversu margir eru myrtir á ári hverju í Suður-Afríku nemur þetta ekki nema tæplega 1% af heildarmorðum.

Eignarnám án endurgjalds

Ein afleiðing langvarandi aðskilnaðarstefnu í Suður-Afríku er sú að þó að svartir séu í miklum meirihluta þar í landi þá eiga hvítir mikinn meirihluta jarða. Því hefur ríkisstjórnin leitt í lög eignarnámsheimildir til að freista þess að draga úr þessu ójafnræði aðskilnaðar- og nýlendustefnunnar. Til þessa hefur þessum heimildum ekki verið beitt, þess í stað hafa hvítir bændur verið hvattir til að selja jarðir sínar sjálfviljugir. Þessi hvatning hefur þó ekki borið árangur. 75% af landbúnaðarjörðum í einkaeign er í eigu hvítra bænda, en hlutfall hvítra í Suður-Afríku er aðeins um 8 prósent. Hlutfall svartra er um 80 prósent en þeir eiga þó aðeins um 15% jarða.

Hafa embættismenn kallað eftir ofbeldi gegn hvítum bændum?

Trump sýndi upptökur af sérstökum pólitískum samkomum þar sem lagið Kill the Boer (Drepum bóndann) er sungið. Forsetinn telur að þetta sé bein hvatning til morða og ofbeldis gegn hvítum.

Lagið á rætur að rekja til andspyrnuhreyfinga sem börðust gegn aðskilnaðarstefnunni á tímum þar sem hvítir réðu öllu í landinu. Dómstólar hafa komist að þeirri niðurstöðu að lagið sé ákall um frelsi frekar en ákall eftir ofbeldi. Lagið fjalli um löngun svartra til að rífa niður kerfisbundin yfirráð hvíta minnihlutans yfir öllum auðlindum Suður-Afríku.

Það eru ákveðnir öfgastjórnmálamenn sem eru enn að syngja þennan söng, en þetta eru aðilar sem sitja í stjórnarandstöðu og fara ekki með nein embætti. Trump spilaði myndband með stjórnmálamanninum Julius Malema sem er leiðtogi öfgavinstriflokksins EFF.

Grafir

Trump sýndi útprentaðar fréttir og sagði þær sannanir fyrir morðum hvítra bænda í Suður-Afríku. Á einu blaðinu mátti sjá starfsfólk mannúðarsamtaka grafa fólk í líkpokum. Hins vegar er myndin tekin í Kongó eftir að uppreisnarmenn tóku yfir borgina Goma.

Hvað segja hvítir íbúar Suður-Afríku?

Til að draga þetta saman þá hefur Trump rétt fyrir sér þegar hann segir að það sé verið að myrða bændur í Suður-Afríku. En hann sleppir því þó að nefna að ofbeldið beinist gegn bæði hvítum og svörtum. Morðingjarnir eru gjarnan ræningjar sem leita á bæi þar sem eitthvað er að hafa úr krafsinu. Það vill þó svo til að flestir landeigendur eru hvítir, en á sama tíma er stór hluti starfsfólks þeirra, sem líka er myrtur, svartur. Vandinn í Suður-Afríku er ekki þjóðarmorð gegn hvítum heldur morðalda sem gerir ekki upp á milli kynþátta. Íbúar á landsbyggðinni verða einkum fyrir barðinu á þessu þar sem þeir eru einangraðri en íbúar í borgum. Eins beinast morðin einkum gegn efnaminni bændum sem hafa ekki tök á að ráða sér öfluga öryggisverði. Hvítur bóndi sagði í samtali við AP-fréttastofuna

Suðurafríski bóndinn, Theo de Jaeger, sem er hvítur, segir í samtali við DW að það sé ekkert þjóðarmorð að eiga sér stað. Hann hefur meira að segja reynt að útskýra það fyrir Trump og sendi forsetanum bréf þess efnis.

„Við óttuðumst að hann myndi misskilja hvað þetta snýst allt um. Ég sendi honum bréf um að þau vandamál sem við glímum við eru ekki bara vandamál fyrir hvíta bændur og að það eru líka jafnvel stærri vandamál sem svartir bændur glíma við.“

Íbúar í bænum Noordhoek, sem eru flestir hvítir, ræddu við kínverska ríkissjónvarpið og sögðust vonsviknir yfir málflutningi forsetans.

„Trump er galinn. Hann er að segja alls konar hluti um að hvítir bændur í Suður-Afríku séu að vera myrtir. Veistu hvað hann gerði? Hann sýndi myndir af bara einhverju hvítu fólki sem er ekki einu sinni frá Suður-Afríku.“

Íbúarnir sögðu að vissulega sé tíðni morða og ofbeldis stórt vandamál í landinu, en ofbeldið fari ekki í manngreinarálit, hvað þá eftir kynþætti.

„Það eru glæpir meðal allra. Auðvitað eru fleiri glæpir á fátækari svæðum þar sem er minna um peninga en það gildir um bæði svart og hvítt fólk.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Japönsk veitingastaðakeðja biðst afsökunar – Sögðu kínverska viðskiptavini vera „ókurteisa“

Japönsk veitingastaðakeðja biðst afsökunar – Sögðu kínverska viðskiptavini vera „ókurteisa“
Pressan
Fyrir 2 dögum

Heilbrigðisráðherrann tók barnabörnin með í sund í mengaðri á

Heilbrigðisráðherrann tók barnabörnin með í sund í mengaðri á
Pressan
Fyrir 3 dögum

Lagafrumvarp hræðir marga – Vill banna klám

Lagafrumvarp hræðir marga – Vill banna klám
Pressan
Fyrir 3 dögum

Reiddist mjög þegar hún sá eiginmanninn horfa á klám – Skar undan honum og eldaði liminn í baunakássu

Reiddist mjög þegar hún sá eiginmanninn horfa á klám – Skar undan honum og eldaði liminn í baunakássu
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hvað þýðir „8647“ eiginlega? – Ekki það sem stuðningsfólk Trump segir

Hvað þýðir „8647“ eiginlega? – Ekki það sem stuðningsfólk Trump segir
Pressan
Fyrir 4 dögum

Er Elon Musk gleymdur og grafinn í huga Donald Trump? – „Hann er búinn að vera, hann er farinn“

Er Elon Musk gleymdur og grafinn í huga Donald Trump? – „Hann er búinn að vera, hann er farinn“
Pressan
Fyrir 5 dögum

Trump sagður vilja flytja eina milljón Palestínumanna til Líbíu

Trump sagður vilja flytja eina milljón Palestínumanna til Líbíu
Pressan
Fyrir 5 dögum

Rýma þurfti grunnskóla þegar nemandi kom með handsprengju til að sýna samnemendum sínum

Rýma þurfti grunnskóla þegar nemandi kom með handsprengju til að sýna samnemendum sínum