Sirrý Sig. og eiginmaður Eiríkur Ingimagnsson fór í langt ferðalag á húsbíl um Vestur-Evrópu fyrir tveimur árum. Sirrý hefur nú nýlega gefið út handbók fyrir húsbílafara, byggða á þeim lærdómi sem hún dró af þessu langa og gefandi ferðalagi. Þau hjónin hyggja ný á annað ferðalag með húsbíl til Suður-Evrópu.
„Árið 2020 keyptum við Eiki okkar fyrsta húsbíl og fljótlega vorum við byrjuð að láta okkur dreyma um að fara í „road-trip“ í Evrópu og byrjuðum að kíkja í kringum okkur. Nokkrum mánuðum síðar vorum við búin að ákveða að fara vorið 2023 og fórum á kaf í að undirbúa ferðina. Það var að mörgu að hyggja, til dæmis, hvert við ætluðum að fara.
Ég safnaði upplýsingum alls staðar þar sem ég komst í þær og ýmist skrifaði niður á blað og eða pikkaði inn á tölvuna. Þar sem við ætluðum að vera á ferðinni í átta vikur urðum við að gera ráð fyrir því með því að geyma sumarfrí frá árinu áður og semja við atvinnurekendur. Svo voru það öll þessi smáatriði og pappírar sem við urðum að hafa með okkur.
Þar sem það er yfirleitt allra veðra von á Íslandi ákváðum við að senda húsbílinn frá Þorlákshöfn til Rotterdam auk þess sem við vildum nýta tímann sem við höfðum erlendis. Þegar við loksins fórum af stað í húsbílaferðina fannst mér við engan veginn nægilega undirbúin.
En allt gekk stórslysalaust fyrir sig þrátt fyrir mistök og að þekktum ekki allar umferðareglurnar. Tókum nokkrar rangar beygjur og rákumst utan í bíl og fjallshlíð.
Á hverjum degi setti ég inn á lokaða vefsíðu það helsta sem á daginn hafði drifið, hvert við fórum, ekinn kílómetrafjölda, hvaða stæði við fórum á, kostnað og myndir.
Við vorum varla komin heim þegar við vorum byrjuð að plana aðra ferð og undirbúa hana. Ég ákvað að taka saman allar upplýsingarnar sem ég hafði sankað að mér, dagbókarfærslurnar, reynslu síðustu ferðar, og finna fleira sem gæti nýst okkur og setja saman í bók sem við gætum verið með í húsbílnum og flett auðveldlega upp í henni. Eftir því sem vinnunni fleytti áfram og bókin tók á sig meiri mynd, uppgötvaði ég að hún gæti nýst öðrum sem ætla í svona ferðalag. Þess vegna fékk ég ritstjóra og prófarkalesara, Bergdísi Heiðu Eiríksdóttur, til liðs við mig, og Þóra Dal Þorsteinsdóttir, grafískur hönnuður, gerði bókakápuna. Ég ákvað að láta prenta eftir pöntun en það er Litlaprent sér um að prenta gripinn.
Í stuttu máli er þetta handbók sem hjálpar til við að undirbúa ferðalagið og gott að hafa með á ferðalaginu. Í bókinni eru meðal annars upplýsingar um allskyns öryggisatriði, um stæðin, gasið, tolla, kostnað, við hverju maður má búast og margt fleira sem er nauðsynlegt og gott að vita. Auk þessa eru listar yfir 80 frí og mjög ódýr húsbílastæði. Í bókinni eru einnig nokkrar vefslóðir og smáforrit.
Að vera á húsbíl veitir manni frelsi, ævintýri, upplifanir og endalausa möguleika til ferðalaga sem þurfa ekki að kosta meira en maður vill og getur.
Í september förum við með Norrænu til Hirthals í Danmörku. Við munum keyra niður Jótland á örfáum dögum að Flensborg í Þýskalandi þar sem við ætlum að skoða allar þessar landamærabúðir sem eru þar. Þaðan förum við nánast beint á ská til Hollands nema að það verði eitthvað spennandi á leið okkar. Í Hollandi langar okkur að kíkja á Giethoorn sem oft er kallað Feneyjar Hollands. Auk þess hefðum við áhuga á að sjá mannslíkamasafn, The Corpus Museum, í Leiden í Hollandi. Gamli bærinn í Brugge í Belgíu heillar. Við ætlum að gefa okkur góðan tíma fyrir Vesturland-Frakkland sem skartar mikilli og ólíkri náttúrufegurð og mörgum söfnum, sér í lagi frá stríðsárunum í Normandí.
Það verður öðruvísi fyrir okkur að aka um Norður-Spán miðað við austurströndina. Við erum ekki búin að negla neitt ákveðið niður en það er úr rosalega mörgum stöðum að velja, mest heilla gamlir bæir sem eru umkringdir óspilltri náttúru, og þjóðgarðarnir. Mestu væntingar hef ég til Portúgals og hugmyndin er að fara í eina þjóðgarðinn sem þar er. Leiðin mun liggja til Braga, Porto inn Douro dalinn og eftir það munum við þræða veg N2 niður að Abufeira, þó með allskonar út úr dúrum. Síðan förum við aftur inn í Spán og skoðum svæðið við Seville, Ronda og Granada áður en við förum lengra inn í landið og endum þetta ferðalag við Alicante fyrir eða eftir áramótin, þar sem Æðibitinn okkar fer í geymslu og við fljúgum heim að knúsa öll börnin okkar, barnabörnin og tengdabörn. Við ætlum að nota tímann í göngur og hjólreiðar því gömlu þjarkarnir okkar koma með okkur. Einhver tímann á milli aksturs og útivistar er hugmyndin að slaka á og njóta. Við gerum ráð fyrir þremur til fjórum mánuðum í þetta ferðalag og mun Frakkland, Portúgal og Spánn fá mest af tímanum. Og þar sem við eigum ekki neinar gistingar, ferðir né aðgöngumiða í afþreyingu pantaða, þá erum við algerlega óbundin og getum farið hvert sem okkur dettur í hug. Verið eins lengi og við viljum á einhverjum stað og tekið flug heim fyrir eða eftir jólin.“
Þau sem áhuga á að næla sér í eintak af bókinni geta sent pöntun á netfangið sirrysig.rithofundur@gmail.com