Guðni hefur að undanförnu látið sig málefna landamæranna varða og hefur hann til dæmis gagnrýnt Þorbjörgu Sigríði Gunnlaugsdóttur dómsmálaráðherra á sama vettvangi að undanförnu. Í dag snýr hann sér að Kristrúnu Frostadóttur forsætisráðherra og skorar á hana að taka á vandræðunum sem skapast hafa á landamærunum. Þá lýsir hann skoðun sinni á starfslokum Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum.
Sjá einnig: Guðni talar um aumingjaskap sem kostar landsmenn milljarða
Í grein sinni gerir Guðni orð Ragnars Árnasonar, hagfræðings og prófessors, á Útvarpi Sögu fyrir skemmstu að umtalsefni. Grein Guðna byrjar á eftirfarandi orðum:
„Kæra Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra! Getur það verið rétt að opnu íslensku landamærin kosti þjóðina eitt hundrað milljarða króna á ári? Segi og skrifa eitt hundrað milljarða. Þegar Ragnar Árnason, hagfræðingur og prófessor, setur þessa tölu fram í nýlegu útvarpsviðtali á Útvarpi Sögu hlýtur þú sem ábyrgur forsætisráðherra að setja færustu menn þína til verka, láta þá fara yfir dæmið og annaðhvort afsanna eða staðfesta kenninguna. Þessi óheyrilegi kostnaður byrjaði vissulega á vakt fyrrverandi ríkisstjórnar en það ert þú sem getur – og verður – að leiðrétta kúrsinn tafarlaust.“
Guðni segir að þessi „hlægilegu opnu landamæri Íslands“ í gegnum Schengen virðist vera eins og botnlaus tunna.
„Öll eyríki, Færeyjar, Grænland, Írland og Bretland, fúlsuðu við Schengen og standa sjálf vaktina við flugvelli sína og strandir. Við færðum hins vegar landamæri okkar í allar áttir og allir sem komast inn á Schengen komast hingað án þess að sýna vegabréf eða segja nafn sitt. Glæpagengin koma eins og frjálsir menn, rupla og ræna og hverfa síðan á braut með fenginn,“ segir Guðni og vísar svo í orð Ragnars um margvíslegan óbeinan kostnað vegna hælisleitenda og innflytjenda eins og aukið álag á menntakerfi, heilbrigðisþjónustu og félagslega þjónustu.
„Hann segir þennan óbeina kostnað vandlega falinn í fjárlögum og opinberum skýrslum. Lýðræðislegar grundvallarreglur um upplýsingagjöf og ábyrgð séu þannig fótum troðnar,“ segir hann og bætir við að Ragnar hafi ekki farið út í áhrifin og kostnað vegna aukinnar glæpatíðni, svo ekki sé minnst á alvarleika glæpanna og yfirfullu fangelsin.
„Væntanlega telur hann heldur ekki með langtímakostnað samfélagsins af því að grunn- og framhaldsskólakerfið ráði engan veginn við að mennta með viðunandi hætti nemendur sína þegar kenna þarf hverjum bekk jafnvel á fjölmörgum tungumálum í ólíkum menningarheimum.“
Hann beinir svo orðum sínum að Kristrúnu og segir hana vita mætavel að hundrað milljarðar á ári séu miklir peningar.
„Eins og að byggja eitt háskólasjúkrahús á hverju ári. Þetta eru t.d. um 7% af öllum tekjum íslensku fjárlaganna. Fyrir helming þessarar upphæðar gætir þú sem oddviti jafnaðarmanna nánast lagfært öll vandræði sem snúa hér á landi að öldruðum, sjúkum og fátækum. Það yrði ekki ónýtur minnisvarði fyrir þig, Samfylkinguna og valkyrjurnar,“ segir hann og bætir við að Kristrún hafi breytt og bjargað sínum flotti í síðustu kosningabaráttu þegar hún talaði fyrir skynsamlegri stefnu Mette Frederiksen, formanns danska jafnaðarmannaflokksins, í málefnum innflytjenda og hælisleitenda.
„Nú eruð þið stallsysturnar báðar forsætisráðherrar í ríkisstjórn þjóða ykkar. Vonandi eruð þið í góðu talsambandi. Íslendingar vilja að við stöndum að þessum málum eins og Danir,“ segir hann og skorar á hana að taka vandræðin á hinum opnu landamærum í sínar hendur.
„Til vara bið ég þig þess lengstra orða að rýna og reikna dæmið hans Ragnars Árnasonar. Verði útkoman svipuð ber þér beinlínis skylda til þess að grípa í taumana.“
Guðni endar svo grein sína á að lýsa skoðun sinni á uppsögn Úlfars Lúðvíkssonar, lögreglustjóra á Suðurnesjum, og það er augljóst að Guðni er ekki ánægður með vinnubrögðin þar.
„Nú hafa þau tíðindi gerst að dómsmálaráðherra hefur kastað Úlfari Lúðvíkssyni lögreglustjóra út eins og hundi á hnakkadrambinu. Öllum virtist að Úlfar stæði sína vakt af prýði, vildi stöðva glæpagengi og fíkniefnahópa og hafa röð og reglu á landamærunum. En svona er honum þökkuð vaktin við útidyrnar að Íslandi.“