Það virðist vera að slík fegrunaraðgerð sé mjög tabú að tala um, þrátt fyrir að virðast vera nokkuð vinsæl. Margir halda því fram að ýmsar stjörnur hafi farið í hárígræðslu og birt myndir af stjörnunum, „fyrir og eftir,“ til að sanna mál sitt, og er oft mjög augljóst að það sé mikill munur, allt í einu komið hár þar sem ekkert hár var. En þar sem stjörnurnar, og fólk almennt, sem gangast undir þessa aðgerð tala ekki um það opinberlega er erfitt að vita hversu algengt þetta er.
Svavar ákvað að vera opinn með ferlið og birti myndir frá ferðalaginu og ástandinu – bæði fyrir og eftir aðgerð – á samfélagsmiðlum. Hann er mættur í Fókus, viðtalsþátt DV, til að ræða um aðgerðina og bataferlið. Þáttinn má horfa á hér að neðan, einnig má hlusta á Spotify og öllum helstu hlaðvarpsveitum.
Þegar viðtalið var tekið upp voru 20 dagar liðnir frá aðgerð.
Aðgerðin er ekki framkvæmd hér á Íslandi en það er vinsælt að ferðast erlendis fyrir það, þá sérstaklega til Tyrklands.
Svavar segir að hann hafi verið búinn að spá í að fara í hárígræðslu í dágóðan tíma. „Ég var búinn að vera að hugsa um þetta lengi, hárið var farið að þynnast svolítið mikið. Konan var líka til í að ég myndi gera þetta og ég vildi líka gera þetta, þannig ég sló til.“
Hann segir að aðgerðin sjálf hafi samt verið skyndiákvörðun. „Ég var búinn að tala við lækninn sem við þekkjum smá til því einn vinur konunnar hafði farið í þetta og gekk mjög vel. Ég var búinn að segja að ég ætlaði að hætta við, en svo ákvað ég að fara,“ segir hann hlæjandi og bætir við að þetta hafi akkúrat hitt á páskafríið.
Læknirinn er vel reyndur og hefur einnig starfað í Þýskalandi og Bretlandi. „Maður hefur alveg áhyggjur af „fúski“, en þetta var mjög fær læknir og með alveg teymi á bak við sig.“
Aðgerðin kostaði um 350 þúsund krónur en með öllu, flugi og gistingu, var allt ferlið um 500-600 þúsund krónur.
„Þessi aðgerð tók alveg átta klukkutíma og maður er vakandi allan tímann. Þú færð svæðisbundna deyfingu þannig maður finnur ekkert fyrir þessu en maður finnur fyrir poti, en þetta er ekkert vont. Maður verður mjög þreyttur, þú þarft alveg að vera vel á þig komin til að fara í svona aðgerð. Þú getur ekki farið ef þú ert með einhverja líkamlega kvilla, eins og sykursýki, hjartaveikindi eða eitthvað þannig. Ég myndi ekki mæla með þessu ef þú ert ekki í líkamlega góðu ástandi.“
„Ég hélt að þetta væri miklu léttara en þetta var, því maður var svo búinn eftir þetta. Þetta tók alveg á sko, þetta voru alveg átta klukkutímar og svo er líka sprautað adrenalíni í höfuðið til að koma í veg fyrir að blóðið storkni en ef það storknar þá myndi allt eyðileggjast. Þannig þú sefur ekkert mikið einn dag eftir þetta,“ segir hann.
„Það er ákveðin áhætta að fara í þetta, þú verður ekki að fara í þetta. Þetta er valkvætt, maður þarf ekki að fara í þetta ef maður vill það ekki,“ segir hann og viðurkennir að hann hafi ekki almennilega áttað sig á hversu stórt verkefni þetta væri.
„Ég held ég myndi ekki gera þetta aftur,“ segir hann.
Eftir rúmlega viku munu öll nýju hárin detta af. „Svo vex það aftur, hægt og rólega. Eftir tvo til þrjá mánuði þá á eitthvað að byrja að koma upp, og alveg upp í eitt ár þá á 80 prósent af hárinu að vera komið til baka, jafnvel 100 prósent. Þetta er mjög misjafnt eftir fólki.“
Hann segir ýmsa þætti spila inn í bataferlið. Eins og að drekka nóg vatn og borða hollt.
Eftir aðgerð þurfti hann að sofa sitjandi í tvær vikur með kraga um hálsinn. Hann þurfti líka, og þarf ennþá, að passa sig að svitna ekki og alls ekki koma við hárið því það gæti skemmt bataferlið.
Hann ræðir þetta nánar í þættinum sem má horfa á hér að ofan eða hlusta á Spotify.
Fylgdu Svavari Elliða á Instagram en þar mun hann leyfa áhugasömum að halda áfram að fylgjast með bataferlinu. Hann birti myndir frá Tyrklandi sem má sjá í Highlights undir Tyrkland 2025.