Færst hefur í aukana að Íslendingar fái símhringingar frá erlendum svikahröppum. Í mörgum tilvikum virðist sem svo að símhringingarnar komi frá innlendum aðilum.
Í færslu á samfélagsmiðlinum Reddit segist Íslendingur hafa fengið tvö símtöl nýverið sem líta út fyrir að vera íslensk. Bæði byrjuðu þau á tölustöfunum 867. Símtölin bárust á sama tíma tvo daga í röð og númerin voru óskráð.
„Þetta er orðið frekar mikið vandamál hérna,“ segir annar í athugasemdum við færsluna. Áður fyrr hafi símtöl frá svikahröppum birst sem erlend númer. Nú sé hins vegar orðið auðvelt fyrir svikahrappa að þykjast hringja úr innlendum númerum.
„Númerin sem birtast eru öll virk og birtast flest á ja.is eða annars staðar á netinu,“ segir hann. „Fyrsta símtalið var til að athuga hvort þitt númer væri yfir höfuð í notkun, ég er búinn að fá tvö svona en það er frekar langt síðan ég fékk það seinna. Kannski kominn á einhvern lista yfir þá sem taka ekki tálbeitunni.“
„Ég fékk hringingu í vikunni úr íslensku númeri sem byrjaði á 770 og þar var koma á línunni sem segir „Good day, im calling from Microsoft“,“ segir annar. „Ég skellti bara á þetta um leið og svo hringdi ég í Microsoft á Íslandi og lét þá vita.“
Það sama segir enn annar. „Fékk símtal um daginn byrjaði örugglega á 770 svaraði og útlendingur í símanum kvenmaður. ég fór á ja.is og númerið skráð á einhvern smið (karlmann) á Sauðárkróki minnir mig,“ segir hann.
Ekki er óalgengt að fólk hringi til baka í þessi númer sem sjást og þá svarar einhver grandlaus einstaklingur á Íslandi sem hafði ekki hugmynd um að verið væri að nota símanúmerið hans í svik sem þessi.
Að sögn lögreglu og netöryggisfyrirtækja er erfitt að stöðva símhringingar sem þessar. Er fólk hins vegar hvatt til þess að tilkynna svikasímtöl sem þessi, svo sem til CERT-IS.