Samkvæmt heimildum DV úr nokkrum áttum lentu fangarnir Stefán Blackburn og Gabríel Douane Boama í heiftarlegum slagsmálum inni á fangaklefa á Litla-Hrauni fyrr í vikunni.
Tilefni átakanna voru óuppgerð persónuleg mál milli þeirra, sem DV hefur ekki nánari upplýsingar um. Átökin voru svo harkaleg að fangaverðir á vakt á ganginum treystu sér ekki til að grípa inn í fyrr en þeim hafði borist liðsauki.
Samkvæmt heimildarmönnum DV fór Stefán laskaðri út úr hátökunum en Gabríel en hlúa þurfti að sárum beggja. Átökin voru blóðug en áverkar voru þó ekki alvarlegri en svo að mennirnir eru í einangrun á Litla-Hrauni núna en ekki á sjúkrahúsi. Hlúð er að Stefáni í einangruninni en óvíst er hvort hlúa þurfi að Gabríel.
Stefán Blackburn, sem á að baki langan brotaferil, er einn þriggja sakborninga sem sitja í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar á láti Hjörleifs Hauks Guðmundsson, 65 ára manns frá Þorláksöfn, sem lést þann 10. mars eftir að hafa fundist þungt haldinn í Gufunesi. Bar hann merki mikilla misþyrminga. Mennirnir sem misþyrmdu honum – og Stefán er talinn vera einn þeirra – kúguðu um þrjár milljónir króna út úr Hjörleifi.
Gæsluvarðhaldsúrskurður þriggja sakborninga í málinu rennur út 7. maí en miklar líkur eru á því að gæsluvarðhaldið verði framlengt.
Gabríel Douane Boama afplánar nokkra dóma á Litla-Hrauni. Hann var síðast í fréttum sumarið 2024 er hann lenti í harkalegum átökum við fangaverði á Litla-Hrauni. Skömmu áður var Gabríel í einlægu viðtali við DV þar sem hann lýsti meðal annars tilraunum sínum til að snúa við blaðinu og byggja upp líf sitt, en hann hafði þá, að eigin sögn, verið frá neyslu fíkniefna í um fimm mánaða skeið og mat edrúmennskuna mikils. Í viðtalinu kvartaði Gabríel undan framkomu fangavarða við sig og viðurkenndi að hann glímdi við reiðivandamál. „Ég er með reiðivandamál og ef það er alltaf verið að espa mig upp þá fæ ég ekki sjensinn til að bæta mig. Ég er að reyna að komast út í lífið og standa mig,“ sagði hann meðal annars auk þess að greina frá því að hann hefði misst tvo vini sína úr ofneyslu, sem hafi haft mikil á áhrif á hann. Viðtalið má lesa hér.
Birgir Jónasson, settur fangelsismálastjóri, segir í svari við fyrirspurn DV, að hann tjái sig ekki um einstök mál og upplýsingar um einangrunarvist séu málefni sem hann fjalli ekki um á opinberum vettvangi. Birgir segir:
„Hvort einhver eða einhverjir sæti einangrun vegna atvika innan veggja fangelsanna er innra öryggismál sem ég get því miður ekki fjallað um á opinberum vettvangi, nema eitthvað sérstakt sé.“