Einhverjir stuðningsmenn Liverpool eru pirraðir á Arne Slot stjóra liðsins eftir hörmulegt gengi undanfarið.
Englandsmeistararnir hafa tapað fjórum leikjum í röð í öllum keppnum og frammistaða liðsins á leiktíðinni engan veginn sannfærandi þrátt fyrir svakalega eyðslu á félagaskiptaglugganum í sumar.
Þá fjalla enskir miðlar um það að stuðningsmenn séu pirraðir á að Slot hafi skellt sér til Dúbaí í landsleikjahléinu, en þá hafði liðið tapað þremur í röð.
Daily Mail hefur þó eftir heimildamanni nálægt Slot að Hollendingurinn hafi eytt stærstum hluta ferðarinnar í tölvunni í að reyna að greina vandamál liðsins.
Það dugði ekki til gegn Manchester United í síðasta leik, sem tapaðist óvænt 1-2. Stuðningsmenn Liverpool geta þó huggað sig við að Slot slakaði lítið á í landsleikjahléinu.