Xabi Alonso, knattspyrnustjóri Real Madrid, hefur beðið forráðamenn félagsins um að fylgjast grannt með Florian Wirtz, samkvæmt heimildum frá spænska miðlinum Defensa Central.
Alonso þekkir vel til þýska miðjumannsins eftir farsælt samstarf þeirra hjá Bayer Leverkusen, þar sem Wirtz blómstraði undir stjórn Spánverjans. En upphafið hjá Liverpool hefur ekki farið eins vel af stað.
Wirtz hefur hvorki skorað né lagt upp mark í sínum fyrstu tíu leikjum fyrir Liverpool í öllum keppnum sem vekur athygli í ljósi þess að félagið greiddi 116,5 milljónir punda fyrir hann í sumar.
Samkvæmt fréttinni vill Alonso að Real Madrid haldi áfram að fylgjast með stöðu Wirtz, ef hann nær ekki að aðlagast lífinu á Englandi og fari að íhuga félagaskipti.
Það er þó ólíklegt að Liverpool samþykki að selja Wirtz minna en ári eftir að hafa greitt níu stafa upphæð fyrir hann en merki eru um að hlutirnir gangi ekki snurðulaust.
Wirtz, 22 ára, missti sæti sitt í byrjunarliði fyrir tapið gegn Chelsea um helgina, þar sem Liverpool laut í lægra haldi 2-1 á útivelli.